Hærra greiðslubyrðarhlutfall fasteignalána mun ekki hafa mikil áhrif vegna þess að fáir taka lán með hærri greiðslubyrði en breyting Seðlabankans kveður á um, segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans.

Seðlabankinn tilkynnti í gær að hámark greiðslubyrðar nýrra fasteignalána sé 35 prósent af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum fólks. Hámarkshlutfall hjá fyrstu kaupendum sé 40 prósent.

Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum hefur breytingin almennt ekki mikil áhrif á möguleika fólks til að kaupa húsnæði. Hámark Seðlabankans sé svipað og bankarnir hafi miðað við.

„Það er helst að þetta hafi áhrif á fyrstu kaupendur og mögulega munu breytingarnar auka fjölda þeirra sem velja verðtryggð lán,“ segir Arion banki.

Landsbankinn segir að breytingin geti dregið úr möguleikum fólks til að taka há lán til að kaupa mjög dýrar eignir.

Una segir að nýju reglurnar muni draga úr líkum á því að fólk skuldsetji sig um of og dragi því úr líkum á því að ofskuldsetning knýi áfram ósjálfbærar hækkanir fasteignaverðs. Þessi aðgerð gæti kælt markaðinn en það sé óvíst.

Hækkun stýrivaxta væri líklegri til þess að snöggkæla markaðinn. Það myndi hækka greiðslubyrði fólks sem stangist á við þessa aðgerð.

„En markmið aðgerðarinnar í gær var ekki að hafa áhrif á fasteignamarkaðinn heldur að stuðla að heilbrigðri fjárhagsstöðu heimila og þá stuðla að fjármálastöðugleika í heild.“