Formaður Þroskahjálpar segir stóran hóp ekki geta ferðast með strætó eftir að nýtt greiðslukerfi var tekið í notkun. Kerfið sé hamlandi fyrir öryrkja og fólk með þroskaskerðingu. Framkvæmdastjóri Strætó segir að brugðist verði við ábendingum.

„Ég er leið og reið yfir þessu og hrædd um að það sé verið að skerða frelsið mitt,“ segir Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, sjónvarpskona og baráttukona fyrir réttindum fatlaðra, um Klapp, nýtt greiðslukerfi Strætó bs.

Greiðslukerfið er rafrænt og virkar þannig að farsími eða kort er sett upp við skanna í vagninum þegar greitt er fyrir farið. Öryrkjar fá afslátt af Strætó-fargjaldi en til að virkja afsláttinn þurfa þeir að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir stóran hóp fólks með þroskahömlun ekki geta fengið rafræn skilríki. Sökum fötlunar geti þau ekki valið lykilorð og megi þau ekki fá aðstoð við það.

Einnig sé stafrænt ferli greiðslukerfisins flókið og ekki hafi allir færni til að læra á það. „Ég neita að trúa því að þetta sé annað en hugsunarleysi,“ segir Unnur Helga sem sent hefur bréf bæði til ráðamanna og Strætó en engin svör fengið.

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, sjónvarpskona

„Þetta er stór kúnnahópur Strætó sem nú getur ekki tekið strætó, þarna er verið að skapa hindranir.“

Steinunn Ása er með rafræn skilríki en segist eiga erfitt með að læra á nýja og flókna tækni. „Mér finnst verið að mismuna fólki,“ segir hún. „Ég er vön að taka strætó á hverjum degi en núna get ég það ekki.“

Jóhannes Svanur Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., hefur orðið var við gagnrýni varðandi nýja kerfið sem snúi að öryrkjum og fólki með þroskaskerðingar eða fatlanir.

„Já, við höfum orðið vör við það nú þegar við tökum fyrstu skrefin í þessu nýja kerfi, til dæmis frá samtökum eins og Þroskahjálp.“

Jóhannes segir að brugðist verði við ábendingunum eftir bestu getu. Til að byrja með geti fólk komið í höfuðstöðvar Strætó og keypt strætókort með öryrkjaafslætti. Sýna þurfi staðfestingu frá Tryggingastofnun um að það sé öryrkjar.

„Það er sambærileg lausn og þegar fólk var að kaupa sér árskort í gamla greiðslukerfinu,“ segir Jóhannes.

Spurður að því hvort þessi hópur muni áfram geta notað „gamaldags“ strætómiða segir Jóhannes þá nothæfa til 1. mars á næsta ári.

„Við munum skoða betur fleiri lausnir fyrir þá sem eru ekki með rafræn skilríki eða hafa ekki nægilega góða þekkingu á tækni. En við munum ekki halda áfram notkun á gömlum farmiðum,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Svanur Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.