Götur borgarinnar eru jafn margar og þær eru misjafnar og það sama má segja um heiti þeirra. Sumar eru kenndar við stíga, aðrar stræti og enn aðrar við sund. Örfáar eru þær þó sem enn eru nafnlausar. Nú er allt útlit fyrir að þeim nafnlausu fækki um að minnsta kosti eina. Nafngift lítillar götu við Þjóðleikhúsið er nefnilega í undirbúningi og mega menn búast við að geta gengið inn Egnerssund á næstunni.

Hér má sjá skjáskot af svæðinu á korti Google. Ein gatan er nafnlaus, sem liggur á milli Hverfisgötu og Lindargötu, milli Þjóðleikhússins og Hæstaréttar. Vonandi getur fólk nú bráðum leitað að Egnerssundi í korti Google.

Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri hafði samband við Nafnanefnd borgarinnar þar sem hann óskaði eftir því að fá að senda inn tillögu á heiti sundsins sem er næst fyrir vestan Þjóðleikhúsið. Standi fólk beint fyrir framan leikhúsið liggur sundið með fram vinstri hlið byggingarinnar á milli Hverfisgötu og Lindargötu.

Á þetta var fallist en mæltist Nafnanefnd til að heitið endaði á „-sund“. Ari sendi þá inn tillögu um að sundið verði nefnt eftir einu helsta leikskáldi Norðurlandanna Thorbirni Egner, sem skrifaði Kardemommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi; Egnerssund. Kardemommubærinn verður einmitt settur upp í ár á 70 ára afmæli Þjóðleikhússins.

Mynd tekin af bakhlið Þjóðleikhússins. Lengst til hægri má líta inn Egnerssundið.
Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri kveðst afar glaður með tíðindi dagsins.

„Fáir ef nokkrir hafa verið slíkir velgjörðarmenn Þjóðleikhússins og Thorbjörn Egner, sem gaf sýningarrétt á Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi til leikhússins,“ segir Ari í samtali við Fréttablaðið. „Hann lét sínar höfundaréttartekjur renna í sjóð til að styrkja styrkja leiklistarstarfsemi fyrir börn. Þetta hafa verið einhver allravinsælustu verk sem hafa verið sviðsett á Íslandi og alltaf gegnið gríðarlega vel.“

Nafnanefndin gerði engar athugasemdir við þessa nafngift og samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur þessa tillögu á fundi sínum í dag. Hún gengur nú til borgarráðs þar sem hún verður að öllum líkindum samþykkt. Því má ætlast til þess að menn geti von bráðar farið að ganga Egnerssundið en ekki eitthvert nafnlaust sund við leikhúsið. Óneitanlega meiri bragur á því. „Þessi tíðindi gleðja mig mjög mikið,“ sagði Þjóðleikhússtjórinn að lokum.