Nýtt gos­op opnaðist við eld­gosið í Geldinga­dölum í dag á þriðja tímanum. Að sögn Elísa­betar Pálma­dóttur, náttúru­vá­r­sér­fræðings hjá Veður­stofunni er búinn að mælast órói undan­farið sem Veður­stofan hefur fylgst með.

„Þetta eru mjög lítil og væg merki þannig við settum það undir smá­sjá og erum búin að vera að fylgjast með því og sáum þá sömu lækkun og hefur gerst fyrir opnanir. Þetta er ekki mikil breyting innan gossvæðisins en þarna sáum við merki og gátum séð þetta að­eins fyrir,“ segir Elísa­bet.

Gos­opið er í röð hinna gíganna og er að sögn Elísa­betar eigin­lega í miðjunni.

„Þetta er lítið gos­op og það er spurning hvort þetta verður að gíg. Það frussast bara úr þessu núna,“ segir Elísa­bet. Ef horft er á vef­mynda­vél RÚV má sjá nýja opið lengst til vinstri að sögn Elísa­betar.

Svæðið er lokað í dag vegna veðurs en þegar Veður­stofan varð þess vör að nýtt gos­op væri að opnast létu þau al­manna­varnir vita og björgunar­sveitir fóru á vett­vang sem til­kynntu þeim að það væri nýtt gos­op.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að um klukkan 13:20 tóku náttúruvársérfræðingar eftir lækkun á hæðstu tíðnum á óróamælum við eldstöðvarnar og að sólarhringsvakt Veðurstofunar mun halda áfram að vakta svæðið og fylgjast sérstaklega vel með breytingum á óróa í von um frekari fyrirvara á gossopnunum.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að tilkynning barst frá Veðurstofunni.