Herjólfur hefur aldrei flutt jafn marga far­þega á fyrstu sex mánuðum ársins og nú. Far­þegum fækkaði mikið á sama tíma í fyrra sökum kórónu­veirufar­aldursins en fjölgar nú um 40 prósent á milli ára.

Árið 2019 voru um 135 þúsund sem ferðuðust með Herjólfi fyrstu sex mánuðina en í ár voru það tæp­lega 138 þúsund. Hörður Orri Grettis­son fram­kvæmda­stjóri Herjólfs telur það vera góðu veðri að þakka.

„Það hefur verið mjög gott veður í ár. Við höfum náð að sigla mjög oft til Land­eyjar­hafnar og höfnin hefur verið opin nánast í allan vetur,“ segir Hörður.

Hann segir far­þega­fjöldann minnka töluvert þegar skipið neyðist til að sigla til Þor­láks­hafnar vegna veðurs en þaðan er ferðin þrír tímar til Vest­manna­eyja en ekki hálf­tími eins og annars. Búið er að gera ráð­stafanir til að sjaldnar þurfi að sigla lengri leiðina.

Hörður segir nýja skipið ekki rista jafn djúpt og það gamla og því minni hætta á að höfnin sé of grunn. Þá sé Vegagerðin komið með skip í bið­stöðu allt árið um kring sem getur grafið þegar er fyrirséðað dýpið sé orðið tæpt. Hann segir það vera mikið hagsmunamál fyrir bæjarfélagið að það sé gert.

Stærsti munurinn má sjá á fyrstu þremur mánuðum ársins en það er þá sem veðr­átta og dýpi hafnarinnar veldur oftast vand­ræðum.

Þá segir Hörður að Vest­manna­eyjar séu alltaf að verða vin­sælli staður til að heim­sækja. „Hér er frá­bær gisting, mat­sölu­staðir og af­þreying sem ég hvet alla til að koma og prufa. Vest­manna­eyjar eru alltaf góð hug­mynd.“