Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra vonast til þess að geta mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögreglulögum í næstu viku.
Breytingar sem má finna í frumvarpinu snúa að vopnaburði lögreglu, afbrotavörnum og eftirliti með lögreglu. Málið var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og fer nú frumvarpið til umræðu hjá þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna.
Jón segir að frumvarpið sé að miklu leyti svipað því sem að var þegar það fór í samráðsgátt fyrr á þessu ári en að þó hafi verið bætt við það aukinni heimild til eftirlits með lögreglu og Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu efld verulega.
„Breytingarnar sem eru mest áberandi núna eru styrking á eftirlitsnefnd með störfum lögreglu og nýju embætti innan lögreglunnar sem er gæðastjóri sem snýr að innra eftirliti. Við erum að styrkja verulega þann þátt starfsins,“ segir Jón.
Fjölga starfsmönnum og gæðastjóri tekur til starfa
Hann segir að innan nefndarinnar starfi aðeins einn starfsmaður en að þeim verði fjölgað í tvo og nefndarmönnum sömuleiðis fjölgað í fimm og formaður nefndar í fullu starfi.
„Við erum að styrkja verulega þann hluta málsins eins og ég hafði boðað að yrði gert.“
Áttu von á því að það verði vel tekið í frumvarpið, það talar ágætlega inn í það sem hefur verið að gerast í samfélaginu?
„Frumvarpið er auðvitað löngu komið fram og í sjálfu sér ekkert tengt þessum atburðum sem hafa komið upp á þessu ári en þessi atburður ítrekar enn frekar að búa vel að þessum heimildum lögreglu ásamt þeim aðgerðum sem við erum að grípa til og erum með í undirbúningi,“ segir Jón og á þá við eflingu starfsemi hennar sem snýr að skipulagðri glæpastarfsemi og almennri löggæslu.
Hann segir að nú þegar sé farin beiðni fyrir fjárlaganefnd um aukið fé til þessara málaflokka.
Auknar heimildir lögreglu
Frumvarpið fór í samráðsgátt í mars á þessu ári. Samkvæmt því verða lögreglu verða veittar stórauknar heimildir til að safna upplýsingum og hafa eftirlit með almenningi og tilteknum einstaklingum án þess að um rannsókn tiltekins sakamáls sé að ræða auk þess sem ríkislögreglustjóra verður falið að starfrækja rannsóknarlögregludeild og greiningardeild sem fari með það hlutverk að koma í veg fyrir og rannsaka landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum.
Ítarlega er fjallað um frumvarpið eins og það var í samráðsgáttinni í fréttunum hér að ofan og neðan.