Mikil töf hefur orðið á því að nýtt greiningartæki, sem nýtist meðal annars við greiningar á COVID-19, verði tekið í notkun á Landspítalanum. Tækið var keypt um mitt síðasta ár og upphaflega var vonast til þess að það yrði tekið í notkun í nóvember. Það gekk ekki eftir en nú er stefnt að því að tækið verði klárt til notkunar í byrjun febrúar.

Tækið, Cobas 8800 frá framleiðandanum Roche, kostaði stjórnvöld um 100 milljónir króna en það mun þrefalda möguleg afköst Sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans. Í dag getur deildin greint allt að 2.000 sýni á sólarhring með sínum tækjabúnaði og hefur því þurft að treysta á aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar til þess að ná hámarksafköstunum upp í 5.000 sýni á sólarhring. Þegar hið nýja tæki verður tekið í gagnið verður afkastageta Landspítalans 6.000 þúsund sýni á sólarhring.

Tækið kom loks til landsins þann 13. desember síðastliðinn en er svo sérhæft að hvorki tæknimenn Landspítalans né umboðsaðilans Lýru mega koma nálægt því að setja það upp. „Við megum ekki opna kassana sjálf og því verður að bíða með alla uppsetningarvinnu þangað til tæknimenn koma frá fyrirtækinu að utan. Því miður var orðið svo skammt til jóla að við fengum ekki ekki tæknimenn fyrir áramót,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Tæknimennirnir koma til landsins um helgina og hefja uppsetningu í byrjun næstu viku ef sýni þeirra reynast neikvæð. Tækið ætti að óbreyttu að komast í notkun í byrjun febrúar eins og áður segir.

Karl segir að í ljósi mikilvægis tækisins hafi verið reynt að reka á eftir afhendingunni en ekkert hafi verið við það ráðið. „Við höfum ekki fengið aðrar skýringar á töfinni á afhendingu heldur en COVID-19 álag,“ segir Karl.

Hið nýja tæki mun þrefalda afköst Sýkla- og veirufræðideildar LSH Fréttablaðið/Sigtryggur Ari