Form­leg af­hending nýs björgunar­skips Slysa­varna­fé­lagsins Lands­björg verður í Vest­manna­eyjum, laugar­daginn 1. októ­ber en skipið kom til hafnar í Reykja­vík í dag. Björgunar­skipið mun fá nafnið Þór og er það fyrsta af þremur sem Lands­björg hefur gengið frá kaupum á en um er að ræða stærsta fjár­festingar­verk­efni Lands­bjargar til þessa.

Slysa­varna­fé­laginu barst 142,5 milljóna króna styrkur frá Sjó­vá en þeir fjár­munir verða nýttir í að smíða fyrstu þrjú björgunar­skipin. Til stendur þó að endur­nýja allan flota Lands­bjargar sem telur 13 skip.

Með þessu verður hægt að stytta við­bragðs­tíma í björgun á sjó um helming í flestum til­vikum sam­kvæmt til­kynningu Lands­bjargar.

„Smíði nýju skipanna er stærsta fjár­festing sem Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg hefur ráðist í frá upp­hafi. Svona veg­legur styrkur frá Sjó­vá er af­rakstur ára­tuga trausts sam­starfs, og gerir okkur kleift að hefja smíði fyrstu þriggja skipanna,“ segir Kristján Þór Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar.

„Við viljum þakka Sjó­vá fyrir þetta rausnar­lega fram­lag. Það kom inn í verk­efnið á afar mikil­vægum tíma­punkti og gerði það að verkum að við gátum hafið smíði á fyrsta skipinu. Við erum þakk­lát fyrir traustið sem Sjó­vá sýndi okkur með því að leggja svo mikið fram þegar skipin voru að­eins teikningar á blaði,“ segir Kristján að lokum.

Til stendur að endurnýja allan flota Landsbjargar en hann telur þrettán skip.
Mynd/SlysavarnarfélagiðLandsbjörg

Hvert nýju skipanna kostar um 285 milljónir króna. Með samkomulagi sem gert var í janúar 2021 milli ríkis og Landsbjargar var tryggð allt að helmings fjármögnun þessara skipa.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hafði safnað í nýsmíðasjóð í nokkurn tíma sem tryggði enn frekar getu félagsins til að ráðast í þetta verkefni.

„Við hjá Sjóvá erum stolt og ánægð að geta stutt Landsbjörg í þessu stóra og mikilvæga verkefni. Það er mikið gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að fá ný björgunarskip sem munu gjörbylta öryggi sjófarenda á hafinu í kringum landið og þjónusta byggðir þess um leið. Við höfum sem aðalstyrktaraðili um áratuga skeið átt afar traust og gott samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörg og er okkur því sérstakt ánægjuefni að styðja við þeirra mikilvæga starf með þessum hætti og sinna þannig um leið samfélagslegri ábyrgð okkar," segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.

Nýju björgunarskipin þrjú eru smíðuð hjá KewaTec í Finnlandi. Áætluð afhending á öðru skipinu er fyrir árslok 2022 á Siglufirði. Smíði á þriðja skipinu hefst síðan í janúar 2023 og afhending á því verður eftir mitt það ár. Áfram er unnið að fjármögnun 10 björgunarskipa til viðbótar enda er það markmið Landsbjargar að endurnýja öll þrettán björgunarskip