Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta fyrsta sólarhring ársins en alls voru 109 sjúkraflutningar og 24 verkefni á dælubíla skráð. Segir slökkviliðið í uppfærslu á Facebook-síðu sinni að nýja árið byrji „hressilega“.
Tæplega helmingur sjúkraflutninga voru svokallaðir forgangsflutningar en útköllin á dælubíla voru nánast eingöngu vegna vatnsleka og elds í ruslatunnum og gámum eftir íkveikjur.
„Frá því á föstudag hafa verið 42 útköll í heildina og af því um helmingur eldur í rusli og þriðjungur vatnslekar. Sem sagt nóg að gera þessa helgi. Annars erum við góð og tökum á móti fyrstu vinnuvikur ársins með bros á vör,“ segir í skeyti slökkviliðsins.