Jón Ívar Einarsson læknir mun hefja störf á Klíníkinni eftir tvo daga og bjóða upp á meðferðir og aðgerðir vegna endómetríósu.

Konur og kvár með endómetríósu hafa þurft að leita til Rúmeníu vegna skorts á þjónustu hér á landi og þurft að greiða fyrir þær ferðir og meðferðir úr eigin vasa. Auður Smith kvensjúkdómalæknir hjá Domus Medica hefur verið helsti endó læknirinn á Íslandi ásamt öðrum en aftur á móti hefur gengið erfiðlega að setja saman heildstætt teymi sem sinnir þessum málum.

Jón Ívar hefur mikla reynslu í aðgerðum á endómetrísu og er ljóst að þörf og eftirsókn eftir slíkri þjónustu er mikil. Þrátt fyrir það að Jón Ívar hafi ekki auglýst starf sitt er hann þegar kominn með langan lista af sjúklingum sem bíða eftir að komast í viðtal.

Hann vonaðist til að ná samningum við Sjúkratryggingar Íslands til að draga úr kostnaði fyrir sjúklinga en hann hefur ekki náð lendingu þar.

„Ég hef ekki náð að hefja formlegar umræður með Sjúkratryggingum hingað til enda tel ég ólíklegt að núverandi heilbrigðisráðherra ljái máls á því,“ segir Jón Ívar í samtali við Fréttablaðið.

Jón Ívar hefur starfað sem prófessor við Læknadeild Harvard háskóla og er stofnandi deildar sem sérhæfir sig í kviðsjáraðgerðum kvenna í Brigham and Women's sjúkrahúsinu í Boston. Hann hefur sérhæft sig í endómetríósu aðgerðum síðastliðin 15 ár.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Landspítalinn vinnur nú við að innleiða DRG-kostnaðargreiningu (e. diagnosis-related groups) og með slíkri greiningu sér Jón Ívar fram á að geta boðið upp á svipaðan kostnað eða jafnvel lægri kostnað og alla vega jafn góða þjónustu ef ekki betri.

„Ég vil auðvitað bjóða upp á slíka þjónustu fyrir alla óháð efnahag,“ segir hann.

Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa og fjölgena sjúdómur sem veldur mismiklum einkennum og hefur mismikil áhrif á daglega líf fólks með sjúkdóminn. Endómetríósa leggst á 1 af hverjum 10 einstaklingum sem fæðast í kvenmannslíkama.
Fréttablaðið/Getty images

Endó, eins og sjúkdómurinn er kallaður í daglegu tali, lýsir sér á þann veg að endómetríósufrumur setjast á yfirborðsþekju á hinum ýmsu líffærum, bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans og valda þar bólgum.

Samkvæmt Samtökum um endómetríósu geta einstaklingar með endóverið með innvortis blæðingar í hverjum mánuði á þeim stöðum sem frumurnar eru. Þar sem þetta blóð kemst ekki í burtu geta myndast blöðrur á þessum stöðum. Einnig geta myndast samgróningar milli líffæra og innan kviðarholsins eða annarsstaðar í líkamanum. Allt getur þetta geta valdið miklum sársauka.