Nýtingar­hlut­fall með­ferðar­heimilisins Lauga­lands var undir 30 prósent árið 2020. Þá dvaldi ekkert barn á Lauga­land í 98 daga frá 13. ágúst til 19. nóvember. Að jafnaði dvöldu 1,7 börn í 6 plássum á árinu sem leið. Þetta kemur fram í svari Barnaverndarstofu við fyrirspurn Fréttablaðsins á nýtingu og kostnaði við meðferðarheimilið.

Nýting meðferðarheimilisins hefur farið niður á við á síðustu árum á sama tíma og kostnaður við rekstur þess hefur hækkað.

Árið 2012 var nýtingarhlutfall á Laugalandi 98,4%. Hlutfallið fellur síðan niður í 77,1% árið 2018, 50% árið 2019 og svo 29,6% árið 2020.

Laugaland er einkarekið meðferðarheimili sem starfar samkvæmt rekstrarsamningi og undir yfirstjórn Barnaverndarstofu, sem sinnir jafnframt eftirliti með heimilinu.

Laugaland hefur verið rekið af fé­laginu Pétri G. Brodda­syni ehf. í meira en ára­tug en það voru rekstrar­aðilar sögðu samningnum sínum upp við ríkið þann 1. janúar.

Að sögn Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra hefur engin ákvörðun verið tekinn með að hætta starfsemi að Laugalandi en ráðuneytið og Barnaverndarstofa hafa sex mánuði til að ákveða næstu skref.

Hundrað milljón króna kostnaður og tugmilljónir í arð

Heildar­kostnaður vegna Lauga­lands árið 2020 var 166,9 milljónir króna. Samningurinn við rekstraraðila var samtals 158,5 milljónir og húsaleiga 8,4 milljónir sem er hækkun frá því í fyrra. Heildar­kostnaður vegna Lauga­lands árið 2019 var 159 milljónir króna. Samningurinn við rekstrar­aðila var sam­tals 150,7 milljónir og húsa­leiga 8,3 milljónir. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er launakostnaður á Laugalandi eum 5 til 10 prósent meiri en hjá sambærilegum úrræðum.

Fréttablaðið greindi frá því árið 2018 að eignarhaldsfélagið Pétur G. Broddason ehf., samnefnt rekstraraðilanum, var stofnað árið 2008. Frá þeim tíma hefur einkahlutafélagið, þar sem Pétur er eini eigandi fyrirtækisins og framkvæmdastjóri þess frá upphafi og til 2018 hefur Pétur greitt sér rúmar 42 milljónir króna út úr fyrirtækinu.

Tekjur fyrirtækisins koma alfarið inn frá ríkinu til að reka meðferðarheimilið. Stór hluti ónotaðs fjár ríkisins á heimilinu virðist við fyrstu sýn renna í vasa rekstraraðilans.

Sem fyrr segir sagði rekstraraðili upp samningi sínum við ríkið og hefur félags og barnamálaráðherra verið í sambandi við starfsfólk Laugalands ásam félagsþjónustum á svæðinu. „Það var vilji til að fram­lengja samninginn af okkur hálfu. Við höfum í rauninni sex mánuði. Samningnum er sagt upp 1. janúar og það eru sex mánuðir, þannig við erum á fyrstu metrunum að fara yfir málið,“ sagði Ás­mundur í samtali við Fréttablaðið í síðust viku.

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu segir einnig að það sé of snemmt að segja til um hvað verður um starfsemi Laugalands. Það þurfi að skoða það út frá faglegum og fjárhagslegum forsendum.