„Við munum nota þetta í uppbyggingu í Hlaðgerðarkoti, það er alltaf þörf,“ segir Guðmundur G. Sigurbergsson, fjármála- og rekstrarstjóri Samhjálpar, um myntina sem samtökin fengu að gjöf frá kínverska ferðamanninum Wei Li.

Li hafði ferðast frá Kína með 170 kíló af skemmdri íslenskri mynt en var neitað um að fá að skipta myntinni hér á landi. Gaf hann því Samhjálp stóran hluta hennar.

Guðmundur segir að gjöfin muni nýtast samtökunum vel og að starfsfólk Samhjálpar sé afar þakklátt Li. „Við erum ótrúlega ánægð með að fá þessa peningagjöf, því að þetta eru náttúrulega bara peningar,“ segir Guðmundur.

Hann segist ekki trúa öðru en að auðvelt reynist að koma myntinni í verð. „Ég sé enga ástæðu fyrir því að við ættum ekki að geta skipt þessu,“ segir Guðmundur.

„Mynt glatar ekki verðgildi sínu þó hún beyglist og peningaseðill glatar ekki verðgildi sínu þó hann rifni eða verði sjúskaður. Þannig að ég sé bara enga ástæðu fyrir því að við ættum ekki að geta innleyst þetta,“ segir hann.

Guðmundur segist ekki vera búinn að telja myntina en að samtökin muni um allt. „Ég geri mér ekki grein fyrir því hversu mikil verðmæti þetta eru en ég veit að okkur munar um þetta.“