Þriðja stækkun Stórmoskunnar í Mekka, hinni helgu borg múslima, hefur hafist að nýju. Fækkun pílagríma hefur valdið því að framkvæmdir eru auðveldari á svæðinu. Meðal þess sem gert verður er að koma upp steinloftum, steinbogum við garða og breyta aðalhliðum moskunnar.

Stækkunin var ákveðin árið 2008 og er sú langstærsta í sögu moskunnar. Um 300 þúsund fermetra svæði norðvestan við moskuna var þjóðnýtt og verður því heildarstærð svæðisins tvöfaldað. Áætlaður kostnaður við framkvæmdina var 10 billjónir Bandaríkjadala, eða um 1.500 milljarðar króna.

Stórmoskan er sú stærsta í veröldinni og umkringir Kaaba, helgustu byggingu múslima. Múslimar verða að fara einu sinni á ævinni til Mekka og ganga sjö hringi í kringum Kaaba, innan í Stórmoskunni. Þetta hefur gert Mekka að einum mesta ferðamannastað veraldar, jafnvel þó aðeins múslimar megi heimsækja hana.

Vegna fjölgunar mannkynsins á 20. og 21. öldunum, úr 1,6 milljörðum árið 1900 í 7,8 árið 2020, er Stórmoskan löngu sprungin. Áætla Sádi-Arabar að 30 milljónir pílagríma muni heimsækja moskuna árlega og eftir stækkunina geta 2,5 milljónir komið þar saman í einu, miðað við tæplega 800 þúsund áður.

Moskan var upprunalega reist við upphaf íslams á sjöttu öld, en hefur tekið margvíslegum breytingum í gegnum aldirnar. Fyrsta nútímastækkunin var gerð milli 1955 og 1973 og önnur á milli 1982 og 1988. Þriðja stækkunin var fyrirskipuð af Abdullah konungi, sem lést árið 2015.

Þegar hefur ein ný álma verið opnuð, Masaa. Auk þess að stækka og lagfæra er einnig verið að nútímavæða moskuna. Til að mynda hafa 79 sjálfvirk hlið verið sett upp, nýr spítali, rafmagnskerfi og öryggisgæslan uppfærð. Það er ekki að ósekju, því árið 1979 hertóku hryðjuverkamenn moskuna og héldu þar gíslum í tvær vikur. Þá er svæðið í kringum Kaaba, þar sem hringganga pílagrímanna fer fram, stækkað, til að koma fleirum fyrir.

Stækkun moskunnar hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Stærsta áfallið var þegar byggingarkrani féll á hliðina, kramdi 111 manns til dauða og særði tæplega 400. Allir hinir látnu voru útlendingar, flestir frá Bangladess og Egyptalandi. Framkvæmdir voru stöðvaðar um tíma eftir slysið.

Framkvæmdir voru aftur stöðvaðar í byrjun mars vegna COVID-19 faraldursins. Þá voru einnig settar miklar takmarkanir á pílagríma en þeim fækkaði mjög mikið vegna ferðatakmarkana víða um heim. Fækkun pílagríma olli því þó að mun auðveldara var að vinna að framkvæmdum við moskuna og því var ákveðið að byrja á nýjan leik. Þá hafa einnig verið sett upp sérstök sótthreinsunarhlið sem allir verða að ganga í gegnum.

Upprunalega átti að ljúka við þriðju stækkunina árið 2019 en því var frestað til ársins 2020. Ekki er vitað hversu mikil áhrif lokunin hefur haft, en framkvæmdaleyfishafinn, Saudi Binladin Group, hefur ekki gefið út breytingu á því.