Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra hefur kynnt frum­varp til laga um opin­beran stuðning við ný­sköpun í Sam­ráðs­gátt stjórn­valda.

Í frum­varpinu eru lagðar til tals­verðar breytingar á opin­beru stuðnings­um­hverfi ný­sköpunar á Ís­landi m.a. felast í því á­form um að starf­semi Ný­sköpunar­mið­stöðvar Ís­lands verður lögð niður, stofnaðir verða Ný­sköpunar­garðar með á­herslu á stuðning við frum­kvöðla og sprota­fyrir­tæki á sviði há­tækni, fram­lög til ný­sköpunar á lands­byggðinni verða aukin og nýr sjóður settur á fót fyrir rann­sóknir í byggingar­iðnaði.

„Með frum­varpinu erum við að for­gangs­raða verk­efnum í þágu ný­sköpunar­um­hverfisins í takti við Ný­sköpunar­stefnu. Um­hverfi ný­sköpunar á Ís­landi hefur tekið stakka­skiptum á undan­förnum árum og frum­varpið tekur mið af því. Ný­sköpunar­mið­stöð Ís­lands hefur gegnt mikil­vægu hlut­verki sem ber að þakka en undan­farna mánuði höfum við unnið að því að endur­skoða hlut­verk stofnunarinnar og fundið hluta verk­efna hennar nýtt heimili á meðan önnur verk­efni verða færð til eða hætt. Það er eðli­leg þróun í jafn kviku um­hverfi og ný­sköpunar­um­hverfið á Ís­landi á að vera,” segir Þórdís. í frétta­til­kynningu frá ráðu­neytinu.

Í frétta­til­kynningunni segir enn fremur að þegar Ný­sköpunar­mið­stöð var stofnuð árið 2007 var gert ráð fyrir að stofnunin yrði endur­skoðuð tveimur árum síðar.

Slík endur­skoðun hefur ekki átt sér stað fyrr en nú en bæði stjórn­völd og hag­aðilar hafa lagt hana til, meðal annars þar sem kveðið var á í lögum um stofnunina að hún skyldi ekki vera í sam­keppnis­rekstri á markaði.

„Við viljum skerpa á hlut­verki og for­gangs­röðun ríkisins í opin­berum stuðningi við ný­sköpun og at­vinnu­líf með því að leggja á­herslu á þá starf­semi sem þarf mestan stuðning“ segir ráð­herra.

Starfsemi Nýsköpunargarða gert hærra undir höfði

Stofnaður verður sér­stakur sjóður um bygginga­rann­sóknir í sam­starfi við fé­lags­mála­ráðu­neytið og mótuð lang­tíma­stefna um þróun, rann­sóknir og ný­sköpun í ís­lenskum byggingar­iðnaði.

Auk rann­sókna í byggingar­iðnaði hefur Ný­sköpunar­mið­stöð unnið að ýmsum rann­sóknar­verk­efnum á sviði efnis-, líf- og orku­tækni. Með til­komu Ný­sköpunar­garða er þeirri starf­semi gert hærra undir höfði.

„Okkur finnst mikil­vægt að tryggja form­lega að­komu há­skóla­sam­fé­lagsins að rekstri Ný­sköpunar­garða og að há­skólarnir taki virkan þátt í að þróa verk­efnið á­fram“ segir ráð­herra.

Húsnæði Nýsköpunarmiðstöðvar fært til ríkiseigna

Í febrúar síðast­liðnum kynnti ný­sköpunar­ráð­herra á­form sín um að leggja Ný­sköpunar­mið­stöð Ís­lands niður um ára­mót og finna nýjan far­veg þeim verk­efnum sem haldið yrði á­fram.

Bein fram­lög úr ríkis­sjóði til Ný­sköpunar­mið­stöðvar Ís­lands eru nú rúm­lega 700 milljónir króna ár­lega, að undan­skildum kostnaði við hús­næði NMÍ í Keldna­holti, sem fært verður til ríkis­eigna.

Ráð­gert er að tæp­lega helmingur þess fjár­magns verði notaður til að fylgja eftir þeim verk­efnum stofnunarinnar sem fram­hald verður á og ráð­herra á­formar því að rúm­lega 350 milljónir króna verði eftir í ríkis­sjóði að lokinni endur­skipu­lagningu.