Ísland er í tuttugasta sæti á lista Alþjóðahugverkastofnunarinnar yfir mest nýskapandi ríki heims. Í fyrra var Ísland í 17. sæti listans og hefur fallið um þrjú sæti.

Þrjú efstu sæti listans skipa Sviss, Bandaríkin og Svíþjóð, líkt og í fyrra. Kína hefur risið hratt á listanum undanfarin ár og er nú í ellefta sæti.

Listinn er byggður á mati á áttatíu mismunandi þáttum sem tengjast annars vegar aðstæðum til nýsköpunar og hins vegar niðurstöðum nýsköpunar.

Í tilkynningu frá Hugverkastofunni segir að Ísland skori hærra en flestar Evrópuþjóðir í þessum efnum, miðað við þjóðarframleiðslu, en þar er landið í 12. sæti listans af 39 Evrópuþjóðum.