Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) fundar um aukaverkanir bóluefnis AstraZeneca í dag, býst stofnunin við að gefa einhver svör varðandi rannsókn sína á bóluefninu seinnipartinn í dag.

Líkt og greint hefur verið frá síðustu viku hefur notkun bóluefnisins verið stöðvuð í fjölda landa í Evrópu vegna mögulegra tengsla bólusetningar með bóluefni AstraZeneca við blóðtappa. Notkunin hefur verið stöðvuð tímabundið á meðan Lyfjastofnun Evrópu rannsakar bóluefnið.

Í tilkynningu frá EMA á mánudaginn kemur fram að EMA telji enn að ávinningur af bóluefninu sé meiri en áhættan.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Hún tekur undir með mati Lyfjastofnun Evrópu að ávinngur bóluefnisins sé meiri en hættan við að nota það. Þó þurfi að rannsaka allar aukaverkanir sem þessar til hlítar, enda um að ræða alvarleg og sjaldgæf tilfelli sem komu upp hjá hópi fólks sem er öllu jafna heilbrigt og ungt, enda er efnið ekki gefið elstu einstaklingunum í flestum löndum.

„Það er mjög mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld staldri aðeins við og horfi á hvort að mögulega geti verið þarna orsakasamhengi en það þarf ekkert að vera,“ segir Rúna.

Nú sé verið að safna saman upplýsingum sem muni auka öryggi bóluefnanna. „Þegar það verður búið að fara svona ofan í saumana á þessu bóluefni þá verður það örugglega mjög öruggt því það verður búið að velta við hverjum steini," bætir Rúna við.

Alls hafa 9.270 einstaklingar verið bólusettir með AstraZeneca hérlendis en Lyfjastofnun Íslands hefur borist 188 tilkynningar um aukaverkanir eftir bólusetningu með efninu, þar af fimm alvarlegar.