Skiltamálun Reykjavíkur og Nýja stjórnarskrárfélagið hafa hafist handa við að setja upp nýtt vegglistaverk við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg.

Um er að ræða annan vegg í miðbæ Reykjavíkur þar sem vegglistaverk með með áletruninni „Hvar er nýja stjórnarskráin“ er sett upp en í síðustu viku var slíkt verk fjarlægt eftir að hafa staðið í aðens tvo sólarhringa. Veggurinn þar sem vegglista­verkinu var komið upp stendur við hlið Sjávar­út­vegs­ráðu­neytisins en áletrunin var fjarlægð að beiðni Rekstrarfélags stjórnarráðsins á mánudag.

Verkið dúkkaði þó upp að nýju aðeins spölkorn frá fyrra verkinu daginn eftir að það var fjarlægt og hefur staðið óhreyft síðan.

Katrín Oddsdóttir birti mynd af veggnum við Hegningarhúsið og hvatti fólk til að kíkja við.
„Við eigum nýja stjórnarskrá!," segir Katrín.

Aldrei meiri stuðningur

Veggjaþvotturinn í síðustu viku virðist þó ekki hafa skilað sér í öðru en holskeflu undirskrifta til stuðnings herferðar um nýja stjórnarskrá en tæplega fimm þúsund skrifuðu undir drög að nýrri stjórnarskrá á þriðjudaginn. Alls hafa tæplega 40 þúsund manns skrifað undir en undirskriftasöfnun líkur þann 20. október næstkomandi en hægt er að skrifa undir hér. Aldrei hafa jafn margar undirskriftir safnast í álíka herferð hér á Íslandi fyrr.