Guð­rún Aspelund, sótt­varnar­læknir segir að fyrsti mánuður hennar í starfi hafi verið góður og starfið leggist vel í hana. Í næstu viku hefjast bólu­setningar á örvunar­skömmtum á Covid bólu­efnum og fyrir in­flúensu.

„Við erum að hvetja til bólu­setninga á­kveðinna hópa, það eru allir eldri en sex­tíu ára, ó­næmis­bældir og aðrir úr á­kveðnum á­hættu­hópum, á­samt heil­brigðis­starfs­mönnum. Síðan geta allir sem vilja fengið örvunar­skammt. En við erum sér­stak­lega að hvetja þessa hópa til þess að mæta til bólu­setningar, því rann­sóknir sýna að það dregur úr al­var­legum veikindum og spítala­inn­lögnum,“ segir Guð­rún, sem segir að það sé til nóg af upp­runa­lega bólu­efninu.

„Svo erum við undir­búin undir það að inflúensan kemur væntan­lega og á­standið gæti versnað eitt­hvað við það. Þannig við erum einnig að hvetja fólk til þess að fara í inflúensu­bólu­setningu í leiðinni,“ segir Guð­rún.

„Við erum tilbúin“

Hans Klu­ge, yfir­maður Evrópu­skrif­stofu WHO sagði ný­lega að tvennt skipti mestu máli til að koma í veg fyrir frekari sam­komu­tak­markanir og það sé að fólk þiggi örvunar­skammt, sér­stak­lega við­kvæmir hópar, og að öll lönd séu með strangt eftir­lit þannig að komi önnur og ný af­brigði upp sé hægt að bregðast við því sem fyrst.

Guð­rún er hæfi­lega bjart­sýn að það þurfi ekki að grípa til að­gerða líkt og sam­komu­tak­markana og vonar að á­standið verði ekki eins og áður.

„Okkur finnst við vera á öðrum stað vegna þess að það er góð bólu­setningar­staða hér á landi og í Evrópu. Við erum að vonast til þess að með á­fram­haldandi bólu­setningu þessara á­hættu­hópa að við getum komist hjá því að grípa til svona að­gerða. Í upp­hafi vorum við ekki með nein bólu­efni og það var skelfi­legt á­stand um allan heim, en okkur finnst við vera betur undir­búin í dag,“ segir Guð­rún.

„En ef það kemur ný bylgja, sér­stak­lega ef um ein­hver skæð af­brigði sem væri kannski meira smitandi og myndi valda meiri veikindum þá auð­vitað þarf að skoða hvaða kosti við höfum í stöðunni. Við vitum af reynslunni hvað virkaði þegar við vorum í þessum að­gerðum áður fyrr. Við erum að vinna í því að upp­færa við­bragðs­á­ætlanir okkar, með til­liti til reynslu síðustu ára. Þannig við erum alveg til­búin, en ég er hæfi­lega bjart­sýn að það þurfi ekki að grípa til slíkra að­gerða,“ segir Guð­rún.

Guð­rún var stödd í Stokk­hólmi þegar blaða­maður náði tali af henni, en hún var að ljúka fundi með ráð­gjafa­hóp fyrir sótt­varnar­stefnu Evrópu­sam­bandsins. En hvernig hefur fyrsti mánuðurinn sem sótt­varnar­læknir verið?

„Það hefur bara verið gott og leggst vel í mig. Það er margt sem maður þarf að at­huga og læra en það gengur bara á­gæt­lega held ég,“ segir Guð­rún.