Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Karl Frímannsson í embætti skólameistara Menntaskólans á Akureyri til fimm ára frá 1. ágúst. Nýi skólameistarinn segir að ekki hafi verið staðið nógu vel að styttingu náms í framhaldsskólum. Huga verði að álagi á framhaldsskólanema þar sem margir þurfi að fórna félagslífi sínu eftir að námstíminn var styttur.

Karl hefur starfað sem sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar undanfarin fjögur og hálft ár. Mikill hiti varð í ráðningarferlinu þegar kennarar við Menntaskólann á Akureyri mótmæltu vinnubrögðum skólanefndar MA. Ásmundur Einar Daðason brást við með skipan hæfnisnefndar utanaðkomandi sérfræðinga. Að mati hæfninefndar komu þrír af sjö umsækjendum um skólameistarastöðuna helst til álita til að gegna embættinu. Meðal þeirra var Karl sem mennta- og barnamálaráðherra mat hæfastan.

Karl segist ekki líta svo á sem það verði áskorun að mæta til leiks í skólanum vegna deilnanna og forsögunnar.

„Nei, ég upplifði umræðuna þannig að hún beindist ekki gegn einum umsækjanda, eins og kennarar tóku fram í sinni ályktun. Það var fyrst og fremst verið að gera athugasemdir við vinnubrögð skólanefndarinnar,“ segir Karl.

Spurður um áherslur segir Karl að sígandi lukka sé best. Farsælast sé að móta stefnu með öðru starfsfólki skólans. Hins vegar þurfi markvisst að vinna að því að halda umsóknarfjölda í fyrsta bekk uppi. Stytting náms til stúdentsprófs hafi valdið fækkun í innritun fyrstubekkinga.

„Vonandi er aðsókn á uppleið aftur, ég held að starfsfólk hafi unnið gott starf með því að laga námið að breyttum aðstæðum. En það er meira álag hjá nemendum en var. Sumir nemendur þurfa að velja milli áhugamála og félagsstarfs og þess að sinna náminu vel.“

Þetta segir Karl mjög miður. Hann telur brýnt að endurskoða styttinguna, jafna námsálag, horfa á öll þrettán árin saman í grunnnámi og framhaldsnámi, færa meiri þunga yfir á grunnskólaárin svo nemendur í framhaldsnámi fái aukið borð fyrir báru.

„Þetta er handleggur fyrir marga að klára nám á þremur árum,“ segir Karl og bendir á að á heimasíðu MA sé að finna upplýsingar um að það sé óaðskiljanlegur þáttur í skólastarfinu að taka virkan þátt í félagsstarfinu.

„Við hefðum átt að endurskoða allan námstímann,“ segir Karl. „Þáverandi ráðherra hefði mátt ígrunda þessi mál betur.“

Illugi Gunnarsson var menntamálaráðherra þegar Alþingi ákvað að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú. Meðal helstu raka voru þjóðhagslegur ávinningur. Illugi benti á að Ísland væri eina landið innan OECD þar sem það tæki 14 ár að ljúka námi til stúdentsprófs. Formaður Félags framhaldsskólakennara taldi um það leyti sem málið hlaut afgreiðslu að ef stytta ætti námstímann, þyrfti að skoða það alvarlega að lengja skólaárið til að gæði námsins rýrnuðu ekki.

Aðrir umsækjendur um stöðu skólameistara MA voru Alma Oddgeirsdóttir brautastjóri, Ásta Fönn Flosadóttir skólastjóri, Kristín Elva Viðarsdóttir skólasálfræðingur, Ómar Örn Magnússon doktorsnemi, Sigurlaug A. Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari og Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri.