„Það þarf að tryggja að það sé staðið rétt að þessu,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri sem telur að um miðjan júlí verði hægt að opna fyrir umsóknir í nýjan Ferðaábyrgðasjóð.

Með samþykkt nýrra laga á Alþingi á þriðjudaginn er Ferðamálastofu falið að reka svokallaðan Ferðaábyrgðasjóð sem ferðaskrifstofur geta sótt um lán úr til að endurgreiða viðskiptavinum pakkaferðir sem af óviðráðanlegum ástæðum féllu eða munu falla niður á tímabilinu 12. mars til 31. júlí á þessu ári.

Skarphéðinn segir ferðaskrifstofur þegar byrjaðar að spyrjast fyrir um nýja sjóðinn. „En það á eftir að ganga frá reglugerð og tæknilegum atriðum. Við erum að vonast til þess að það klárist fyrir miðjan mánuðinn,“ segir hann. Gæta þurfi að ýmsum lögformlegum atriðum, eins og til dæmis hvort nýju lögin stangist á við ríkisstyrkjareglur í EES-samningnum – sem hann telji þó víst að sé ekki tilfellið.

„Það þarf að tryggja að það sé staðið rétt að þessu. Þarna er verið að lána fyrir tilteknum endurgreiðslum,“ segir Skarphéðinn og útskýrir að ganga þurfi úr skugga um að eftirliti og eftirfylgni verði rétt háttað svo öruggt sé að peningarnir fari í það sem þeim sé ætlað. „Þeir eru til þess eins að endurgreiða og þarf að finna fyrirkomulag til að passa upp á það.“

Skarphéðinn kveðst telja að allir séu mjög sáttir við að málið leysist með þessum hætti. Þarna sé að minnsta kosti komin fjármögnun til þess að fyrirtækin geti endurgreitt. Lögin geti átt við fimmtán til tuttugu þúsund ferðir enda nái þau bæði til íslenskra ferðamanna á leið til útlanda og erlendra ferðamanna sem keypt hafa pakkaferðir hingað til lands. Erlendi hlutinn geti verið nálægt helmingur af heildarpakkanum.

„Það er grátlega lítið verið að selja ferðir fram í tímann, bæði hjá ferðaskrifstofum sem eru að flytja fólk til landsins og hjá þeim sem eru að flytja Íslendinga til útlanda,“ svarar Skarphéðinn aðspurður um hvernig staðan blasi við honum.

„Íslendingar virðast ekki vera mjög viljugir. Það virðist vera að ganga eftir, þessi hvatning sóttvarnayfirvalda um að fólk ferðist innanlands. Fólk í innlendri ferðaþjónustu er að sjá miklu meira af Íslendingum og vissulega hjálpar það þótt það komi aldrei í stað þess fjölda sem var af erlendum ferðamönnum,“ segir ferðamálastjóri.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. Fréttablaðið/GVA