Tilkynnt var um nafnið á J100 tilraunabílnum á dögunum en hann fær nafnið Torres eftir Torres del Paine þjóðgarðinum í Patagóníu. Með tilkynningunni komu nokkrar tölvumyndir af bílnum sem sýna groddalegt jeppaútlit ólíkt öðru frá merkinu. Grillið er með lóðréttum línum og að aftan er gert ráð fyrir varadekki á afturhlera.

Að sögn SsangYong mun framleiðsla á bílnum hefjast í þessum mánuði fyrir markaðinn í SuðurKóreu. Fyrir Evrópumarkað mun bíllinn aðeins koma rafdrifinn og þá líklega ekki fyrr en í lok næsta árs. Mun hann keppa við bíla eins og Skoda Enyaq en með lægri verðmiða. Ekkert verð hefur verið gefið út fyrir bílinn en hann mun verða mitt á milli Korando og Rexton að stærð. Að sögn SsangYong er einnig von á pallbíl sem byggður verður á Torres.