Nýr dómsmálaráðherra verður kynntur í síðasta lagi á ríkisráðsfundi á morgun klukkan fjögur. Þingflokki Sjálfstæðisflokksins verður tilkynnt hver verður skipaður ráðherra stuttu áður. Þau nöfn sem helst hafa verið nefnd eru þingflokksformaðurinn Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og þingmaðurinn Brynjar Níelsson. Öll löglærð.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður flokksins, hefur tímabundið setið í stóli dómsmálaráðherra síðan Sigríður Andersen steig til hliðar vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um að skipan dómara við Landsrétt bryti gegn ákvæðum Mannréttindasáttmálans. Ákvörðun um hvort taka skuli Landsréttarmálið fyrir í efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu verður tekin í Strassborg á mánudag og kynnt á þriðjudag.

Ef Áslaug verður skipuð ráðherra dómsmála þarf hún að segja sig úr forystu flokksins þar sem hún gegnir starfi ritara, en kveðið er á um það í reglum flokksins. Flokksráðsfundur hefur verið boðaður um miðjan mánuð þar sem hægt væri að kjósa um nýjan ritara.