Að sögn Svavars Grétarssonar, verkefnastjóra nýrra bíla hjá Bílabúð Benna, er bíllinn væntanlegur í lok árs. „Þetta nýja útlit á bílnum er mjög spennandi og við búumst við að markaðssetja hann fyrst og fremst sem rafmagnsbíl,“ segir Svavar. Vizor-framendinn einkennist af vængjalaga dagljósum og Matrix díóðu-aðalljósum. Yfir hliðargluggum er krómlisti sem aðskilur þakið frá gluggunum og liggur listinn að afturenda, þar sem að afturljós með svipuðu lagi er að finna. Mokka er 125 mm styttri en áður og mun vera þægilegri í borgarakstri fyrir vikið. Búið er að auka hjólhaf hans um 2 mm, en stytta umtalsvert skögun fram- og afturenda. Fyrir vikið er plássið áfram jafngott og sama 350 lítra farangursrými og áður. Að innan fær bíllinn nýtt Pure Panel mælaborð með tveimur upplýsingaskjáum. Undirvagn nýs Mokka er CMP undirvagninn frá PSA, sem er einnig undir Peugeot 2008. Fyrir vikið er bíllinn 120 kílóum léttari en áður. Í boði verða þriggja strokka bensínvélar og fjögurra strokka dísilvélar, en bíllinn er hér frumsýndur í rafútgáfu sinni. Þar er hann með 134 hestafla rafmótor og 50 kWst. rafhlöðu sem gefur honum 320 km drægi.

Pure Panel mælaborðið er með tveimur upplýsingaskjáum og kúpt í laginu.