Nýr og erfiðari ópíóðafaraldur er nú á Íslandi samkvæmt heilbrigðisstarfsfólki. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs voru 24 lyfjatengd andlát skráð, þau hafa aldrei verið fleiri á hálfs árs tímabili.

Frá þessu var greint í nýjasta Kompás þætti Stöðvar tvö.

Samkvæmt upplýsingum Kompás eru 21 þúsund Íslendingar langtímanotendur ávanabindandi lyfja og eru lyfjatengd andlát algengust á Íslandi af Norðurlöndunum.

Þá eru þúsundir Íslendinga með lyfjaávísanir fyrir verkjalyfinu Oxycontín.

Líklegri til að koma aftur

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir í samtali við Kompás að einstaklingar sem leiti sér aðstoðar vegna ópíóðafíknar á Vogi séu tvöfalt líklegri til að koma aftur en aðrir fíklar.

Að sögn Valgerðar fjölgi sjúklingum vegna þeirrar fíknar ár frá ári og samkvæmt tölum SÁÁ hafi 35 af þeim sem fengu meðferð vegna ópíóðafíknar dáið.

Verkefnisstjóri Frú Ragnheiðar, skaðaminnkunarverkefni Rauða Krossins, telur Oxycontin algengasta ópíóðann í umferð samkvæmt samtali við Kompás og að efnið sé mikið flutt inn frá Spáni.

Gríðarleg aukning ávísana

Hér á landi fengu um 500 manns ávísað Oxy árið 2011, í fyrra voru þeir sjöfalt fleiri eða um 3.500, samkvæmt upplýsingum Kompás. Aukningin er því gríðarleg.

Samkvæmt viðmælendum Kompás er Oxy öflugt og gott verkjalyf, það sterkasta á íslenskum markaði. Hins vegar sé það mjög ávanabindandi og fljótt myndist þol gagnvart því, því þurfi hærri skammta.

Þá séu fráhvörf af morfín- og ópíóðafíkn hræðileg, og líklega ein helsta ástæða þess að fólki gangi illa að hætta að nota lyfin.

Hægt er að lesa nánar um málið á vef Vísis.