„Þetta er nýr veruleiki á Íslandi að við höfum áhyggjur af byssum og skotvopnaleyfum vegna þess að það er verið að drepa fólk. Það er nýtt að skotvopn séu rædd í þessu samhengi,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, dósent í lögreglufræði við HA.

Morðið á Blönduósi er fimmta skotárásarmálið á landinu það sem af er árs. Skotfélagið á Blönduósi gerði fyrst athugasemdir í nóvember síðastliðnum við hegðun skotmannsins sem var vistaður á geðdeild fyrir örfáum vikum um skeið. Áður hótaði hann manninum sem berst nú fyrir lífi sínu eftir haglabyssuárás um helgina.

„Ég myndi ekki styðja að við frelsissviptum andlega veikt fólk í forvarnaskyni, því það er stimplun fólgin í því. Langflestir með greiningu um geðrænan vanda beita ekki ofbeldi,“ segir Margrét.

„En vegna þess að byssur geta valdið svo miklum skaða á svo skömmum tíma þarf að vera erfitt að fá skotvopnaleyfi og þú átt að geta misst leyfið ef grunur kviknar um ofbeldi. Það er ekki mannréttindabrot að fá ekki að eiga byssu.“

Heimildir Fréttablaðsins herma að lögregla sé með til skoðunar hvort byssumaðurinn, fæddur og uppalinn á Blönduósi, einrænn í seinni tíð, hafi fyrst skotið fyrrum atvinnurekanda sinn. Þá hafi eiginkona atvinnurekandans verið sloppin út úr eigin húsi en hafi snúið aftur við skothvellinn. Byssumaðurinn hafi þá beint byssunni að henni, skotið öðru skoti og lést konan.

Sonur hjónanna, sem var gestkomandi í húsinu ásamt barnsmóður og ungu barni, er samkvæmt heimildum blaðsins talinn hafa orðið vitni að morðinu á móður sinni. Hann hafi lagt í skotmanninn með berum höndum þegar hann var að endurhlaða byssuna í þriðja skotið. Þeim átökum lauk með bana árásarmannsins.

Syninum var sleppt úr haldi lögreglu í fyrrakvöld. Hann hefur enn stöðu sakbornings. Lögregla verst svara af gangi rannsóknarinnar en upplýsti í gær að eiginmaður konunnar sem lést væri í lífshættu.