Eyjalistinn og Fyrir Heimaey munu áfram mynda meirihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja á næsta kjörtímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Málefnasamningur meirihlutans var undirritaður í Eldheimum í dag. Í tilkynningu segir að fjölskyldu-og fræðslumál verði áfram í forgangi; samhliða ábyrgum rekstri og fjárfestingu í innviðum samfélagsins. Sömuleiðis verður lögð áhersla á að veita bæjarbúum framúrskarandi þjónustu.
Segir í tilkynningunni að samkomulag sé um að Íris Róbertsdóttir verði áfram bæjarstjóri; Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs og Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar.
Eyjalistinn verður með formennsku í fjölskyldu- og tómstundaráði og framkvæmda- og hafnarráði og Fyrir Heimaey verður með formennsku í fræðsluráði og umhverfis- og skipulagsráði.