Oddvitar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík hafa boðað til sameiginlegs blaðamannafundar þrjú í dag til að kynna nýjan meirihluta Reykjavík og málefnasamning flokkana.
Blaðamannafundurinn fer fram við stöðvarstjórahúsið í Elliðaárdal og verður utandyra.
Viðræður flokkana hafa staðið síðan 25. maí og legið hefur í loftinu alla helgina að viðræður væru á lokametrunum. Fréttablaðið greindi frá því í gærkvöldi að boðað hefði verið til allsherjarfundar hjá Reykjavíkurfélögum Samfylkingarinnar og í borgarmálaráði Framsóknar. Þeir fundir fara fram í kvöld. Vænta má að sambærilegir fundir fari fram hjá Pírötum og Viðreisn.
Saman hafa þessir flokkar 13 borgarfulltrúa af tuttugu og þremur fulltrúum í borgarstjórn.