MIFA 9 lúxusfjölnotabíllinn er einn af hápunktunum á bílasýningunni í Hannover að þessu sinni og vakti athygli jafnt almennra sýningargesta og sem og fjölmiðla, segir í fréttatilkynningu frá Vatt ehf.. Bíllinn er nýlega kominn á markað í Kína og verður nú einnig boðinn til sölu í Evrópu. Þetta er fyrsti gerðin sem smíðuð er á nýjum og framtíðarmiðuðum undirvagni Maxus sem kallast MIFA. Um er að ræða fjölhæfan undirvagn sem býður upp á rafknúna aflrás fyrir mismunandi gerðir ökutækja.
MIFA 9 er fjölskyldubíll af fullri stærð, (5.270 mm langur, 2.000 mm breiður og 1.840 mm hár) og státar af miklu innanrými. Hann verður fáanlegur jafnt sjö sæta og átta sæta og ræðst sætafjöldinn af þeirri útfærslu sem valin er. Ennfremur verður hann fáanlegur sem tveggja sæta sendibíll, í það minnsta á norskum markaði. Bíllinn kemur með 90 kWst rafgeymastæðu og uppgefið akstursdrægi er 440-595 km samkvæmt WLTP prófun í blönduðum akstri.

Sonja G. Ólafsdóttir markaðsstjóri Vatt ehf., umboðsaðila Maxus, segir að MIFA sé væntanlegur til landsins á þessu ári. „Það er ánægjulegt að geta breikkað úrval Maxus bíla fyrir íslenskan markað með MIFA 9 fjölnotabílnum. SAIC Motors, móðurfyrirtæki Maxus, er gríðarlega stór framleiðandi með mikla framleiðslugetu og því getum við auðveldlega nálgast bíla. Við getum afhent fyrstu MIFA 9 bílana í byrjun næsta árs. Þetta er fullkominn fjölskyldubíll fyrir þá sem vilja mikið pláss og lúxustilfinningu. Þetta er líka bíll sem hentar einstaklega vel sem leigubíll vegna mikils rými og akstursdrægis,“ segir Sonja.

Öll sæti bílsins eru rafstillanleg, með kælingu og upphitun. Og þá er þó ekki allt upptalið því sætin verða einnig með nuddaðgerð sem tryggir þægindi og afslöppun á lengri ferðum. Farþegar í annarri sætaröð geta hallað sætisbökunum aftur í þremur aðskildum sætum sem koma með stillanlegum fótahvílum og stafrænu stjórnborði í armhvílum. Sæti í annarri og þriðju sætaröð eru á sleðum og hægt að renna þeim fram til að auka farangursrýmið.