Á bæjarstjórnarfundi í Borgarbyggð í gær var tekin til umfjöllunar umsögn eldri borgara í Borgarnesi um nýlækkaðan ökuhraða á Borgarbraut frá Hyrnutorgi niður að Egilsgötu í Borgarnesi.

Tók sveitastjórn Borgarbyggðar þá ákvörðun fyrir stuttu að lækka hámarkshraða á fyrrgreindum stað úr 50 km niður í 30 km á klst.

Segir eldir borgarinn í innsendu bréfinu að tilskipun um „líkfylgdarökuhraða“ sem nú sé fyrirskipaður á götum Borgarness sé arfavitlaus. Það sé aldeilis útilokað fyrir hinn almenna bæjarbúa að fara eftir þessari 30 km vitleysu. Í alvöru bæjarfélögum sé 30 km hámarkshraði aðeins í þröngum íbúðargötum og að beggja vegna Borgar- og Brákarbrautar séu gangstéttir, gangbrautir og hraðahindranir í góðu lagi.

„Nú á aldeilis að féfletta almenning,“ segir bréfskrifandi sem segir:„Mín skoðun er sú að eftir árið verði allir bæjarbúar búnir að fá sekt og sumir fleiri en eina.“

Kemur bréfskrifandi jafnframt með þá tillögu um að „þessi bjálfagangur og líkfylgdarökuhraði í sveitarfélaginu verði dreginn til baka hið snarasta“.

Rétt að fá reynslu á nýja hraðann áður en umræða verði tekin

Byggðarráð þakkaði íbúanum fyrir bréfið en svaraði um hæl: „Byggðarráð telur að rétt sé að fá betri reynslu á þann hámarkshraða sem í gildi er á Borgarbraut áður en tekin verður umræða um að breyta honum aftur. Umferð fólks um miðbæinn hefur t.d. vaxið verulega í kjölfar mikillar uppbyggingar á íbúðar- verslunar- og hótelhúsnæði á því svæði og því áríðandi að tryggja öryggi þess. Einnig er umferð skólabarna mikil um götuna stóran hluta ársins sem verður að hafa í huga við ákvarðanir sem þessar.“