Liðnar eru rúmar tvær vikur frá því að Keir Starmer tók við sem leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi. Hlaut hann 56,2 prósent atkvæða, mun fleiri atkvæði en Rebecca Long-Bailey sem fékk næst flest, eða tæp 28 prósent.Starmer tekur við af Jeremy Corbyn sem sagði af sér eftir að flokk­urinn galt afhroð í þingkosn­ingunum í desember síðastliðnum. Corbyn færði flokkinn mun lengra til vinstri, varð flokkurinn nánast óþekkjanlegur frá Verkamannaflokki Tony Blair og Gordon Brown sem stýrði Bret­landi í meira en áratug.

En hver er þessi maður sem leiðir nú stjórnarandstöðuna og gera má ráð fyrir að verði forsætis­ráðherraefni flokksins í næstu kosn­ingum? Starmer er 57 ára lög­fræð­ingur, giftur og faðir tveggja barna. Sonur hjúkrunarfræðings og smiðs, á hann ársmiða á leiki Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið þingmaður Verka­manna­flokksins frá árinu 2015. Hefur verið hlegið að því meðal flokks­manna að hann virðist vera svo gallalaus stjórnmálamaður á blaði að það mætti halda að hann væri uppskáldaður.

Fyrir helgi sagði Starmer við BBC að hann væri fyrst og fremst feginn að vera orðinn leiðtogi því hann þoldi ekki að vera í samkeppni við samflokksmenn. „Ég hataði að þurfa að selja sjálfan mig til flokksmanna,“ sagði hann. „Þetta er miklu þægi­legra en að vera í leiðtogaslag.“Hann lenti upp á kant við Cor­byn síðasta haust eftir að upptaka af honum rataði í fjölmiðla þar sem hann sagði marga telja að flokknum myndi ganga betur án Corbyn.

Hann var skuggaráðherra Verkamannaflokksins í Brexit­málum og var ekki á sömu línu og forystan. Vildi Starmer að kosið yrði að nýju og það yrði opinber stefna flokksins í málaflokknum. Hefur hann nú sætt sig við að Brexit verði að veruleika. Eitt fyrsta sem hann gerði sem nýr leiðtogi var að biðja samfélag gyðinga afsökunar, en Corbyn var sakaður um að leyfa gyðingahatri að grassera innan flokksins. Starmer hyggst afmá þann stimpil en það mun reynast erfitt verkefni þar sem málið er viðkvæmt og snertir marga úr innsta hring flokksins.

Veiran má ekki bitna mest á þeim minnst mega sín

Áður en hann sneri sér að stjórn­málum var Starmer um tíma æðsti sak­sóknari Bretlands, féll það meðal annars í hans hlut að biðja fórn­ar­lömb Jimmy Savile afsökunar á að Savile sat ekki í fangelsi. Þar á undan starfaði hann sem mannréttindalögfræðingur en hann var meðal verjenda í Mc­Libel-málinu, 10 ára löngu meið­­yrða­máli McDonalds gegn höf­­und­um dreifimiða með ýms­um fullyrðingum um BigMac. Athygli vekur að hann er í raun Sir Keir Starmer, en hann var aðlaðaður árið 2014 fyrir störf sín í lögmennsku. Starmer vill ekki nota þann titil.

Starmer kemur á furðulegum tímum inn sem leiðtogi enda eru fáir að hugsa um flokkspólitíska bar­áttu núna þegar COVID-19 far­ald­urinn gengur yfir. Boris Johnson forsætisráðherra er vinsæll í skoð­ana­könnunum en ef fylgi hans fer að dala, hvort sem það verður vegna viðbragða vegna faraldursins eða annars, mun Starmer verða áber­andi sem hans mögulegi eftirmaður í Downing-stræti.Hann lýsir sjálfum sér sem sós­í­a­lista. Vill hann halda í mörg af stefnu­málum Corbyn, til að mynda að þjóðnýta járnbrautir landsins og hækka skatta á þá sem þéna mest.

Vinstri­stefna Corbyns hefur ekki náð miklum árangri fyrir flokkinn sem þarf að ná meirihluta atkvæða í meirihluta allra einmennings­kjör­­dæma landsins til að komast í ríkisstjórn. Má því búast við að flokk­­ur­inn undir Starmer komi til með að höfða meira inn á miðj­una en þó ekki á sama hátt og flokk­ur­inn gerði undir stjórn Blair.

Stóra málið í Bretlandi þessa stund­ina, að mati Starmer, er það að opnun landsins eftir að kóróna­veiran gengur yfir bitni ekki mest á þeim sem minnst mega sín. „Því lengur sem skólarnir eru lokaðir, því meira bil myndast á milli þeirra sem fá góða kennslu heima fyrir og þeirra sem eru ekki í aðstöðu til þess,“ sagði Starmer við BBC. Hann ætli sér þó ekki að stilla sér upp sem beinum andstæðingi rík­is­stjórnarinnar heldur sé hans hlutverk að veita aðhald.