Haga­mús hefur ný­verið numið land í Vest­manna­eyjum, en fram til þessa höfðu þar einungis verið húsa­mýs. Greint er frá þessu á vef Náttúru­fræði­stofnunar Ís­lands.

Haga­músin er býsna al­geng hér á landi og er talið að hún hafi komið til landsins með land­náms­mönnum á 10. öld og hefur verið hér síðan. Þrjár aðrar nag­dýra­tegundir lifa á Ís­landi; húsa­músin, brún­rottan og svar­trottan. Brún­rottan kom til landsins á 18. öld og svar­trottan í upp­hafi 20. aldar. Svar­trottan lifir í Vest­manna­eyjum en þar finnast hins vegar ekki brún­rottur, að því er segir á vef Náttúru­fræði­stofnunar.

Stofnuninni bárust myndir af músum sem veiddust í heima­húsi í Eyjum í haust, en á myndunum sjást bæði húsa­mýs og haga­mýs.

„Þetta þótti til tíðinda enda hefur það verið al­kunna að í Vest­manna­eyjum séu ein­göngu húsa­mýs en engar haga­mýs. Þegar fréttir bárust síðan af meintri haga­mús sem veidd var í heima­húsi í Heima­ey þann 26. októ­ber síðast­liðinn óskaði Náttúru­fræði­stofnun Ís­lands eftir því að fá hræið til greiningar. Í ljós kom að um full­orðna karl­kyns haga­mús var að ræða og er hún nú varð­veitt á vísinda­safni stofnunarinnar.“

Haft er eftir Ás­mundi Ás­munds­syni, mein­dýra­eyði í Vest­manna­eyjum, sem heldur skrá yfir veidd nag­dýr í Heima­ey, að fyrsta haga­músin hafi veiðst árið 2020 á suður­hluta eyjarinnar.

„Haga­mús hefur þó lík­lega veiðst árið 2019 án þess að hún hafi verið greind til tegundar. Eftir þetta hafa haga­mýs veiðst í jaðri nýja hraunsins á austur­hluta eyjarinnar og í Herjólfs­dal vestan­megin byggðarinnar. Ás­mundur telur að haga­mýs séu nú út­breiddar um alla Heima­ey.“

Nánar er fjallað um málið á vef Náttúru­fræði­stofnunar Ís­lands.