Hagamús hefur nýverið numið land í Vestmannaeyjum, en fram til þessa höfðu þar einungis verið húsamýs. Greint er frá þessu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Hagamúsin er býsna algeng hér á landi og er talið að hún hafi komið til landsins með landnámsmönnum á 10. öld og hefur verið hér síðan. Þrjár aðrar nagdýrategundir lifa á Íslandi; húsamúsin, brúnrottan og svartrottan. Brúnrottan kom til landsins á 18. öld og svartrottan í upphafi 20. aldar. Svartrottan lifir í Vestmannaeyjum en þar finnast hins vegar ekki brúnrottur, að því er segir á vef Náttúrufræðistofnunar.
Stofnuninni bárust myndir af músum sem veiddust í heimahúsi í Eyjum í haust, en á myndunum sjást bæði húsamýs og hagamýs.
„Þetta þótti til tíðinda enda hefur það verið alkunna að í Vestmannaeyjum séu eingöngu húsamýs en engar hagamýs. Þegar fréttir bárust síðan af meintri hagamús sem veidd var í heimahúsi í Heimaey þann 26. október síðastliðinn óskaði Náttúrufræðistofnun Íslands eftir því að fá hræið til greiningar. Í ljós kom að um fullorðna karlkyns hagamús var að ræða og er hún nú varðveitt á vísindasafni stofnunarinnar.“
Haft er eftir Ásmundi Ásmundssyni, meindýraeyði í Vestmannaeyjum, sem heldur skrá yfir veidd nagdýr í Heimaey, að fyrsta hagamúsin hafi veiðst árið 2020 á suðurhluta eyjarinnar.
„Hagamús hefur þó líklega veiðst árið 2019 án þess að hún hafi verið greind til tegundar. Eftir þetta hafa hagamýs veiðst í jaðri nýja hraunsins á austurhluta eyjarinnar og í Herjólfsdal vestanmegin byggðarinnar. Ásmundur telur að hagamýs séu nú útbreiddar um alla Heimaey.“
Nánar er fjallað um málið á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.