Banda­ríska varnar­mála­ráðu­neytið vinnur nú að skipun starfs­hóps sem á að hafa það hlut­verk að rann­saka og varpa ljósi á upp­runa fljúgandi furðu­hluta sem meðal annars hafa sést á mynd­böndum úr banda­rískum orrustu­flug­vélum.

CNN greinir frá þessu og hefur eftir tveimur full­trúum í ráðu­neytinu. Búist er við því að hópurinn verði kynntur á næstu dögum.

Fyrr á þessu ári birti ráðu­neytið þrjú mynd­bönd sem virtust sýna fljúgandi furðu­hluti á sveimi. Um var að ræða mynd­bönd sem höfðu áður lekið í fjöl­miðla og stað­festi ráðu­neytið að þau væru ó­svikin. Mynd­böndin sem um ræðir voru tekin árið 2004 og 2015.

Í frétt CNN er bent á að þing­menn sem og full­trúar varnar­mála­ráðu­neytisins hefðu lýst á­hyggjum sínum af þessum ó­þekktu fyrir­bærum sem meðal annars hafa sést í ná­grenni við banda­rískar her­stöðvar. Ekki ríkir ein­hugur um upp­runa þessara fyrir­bæra, sumir telja að um sé að ræða furðu­hluti úr óra­víddum himin­geimsins á meðan aðrir telja lík­legra að um sé að ræða há­þróaðan njósna­búnað.

Full­trúar í leyni­þjónustu­nefnd full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings sam­þykktu í júní að banda­ríska varnar­mála­ráðu­neytið færi í saumana á málinu og að niður­stöður þeirrar at­hugunar yrðu gerðar opin­berar.

„Þarna eru ó­þekkt fyrir­bæri á sveimi í kringum her­stöðvar okkar eða á svæðum þar sem við stundum æfingar. Við vitum ekki hvaðan þau koma og þau eru sannar­lega ekki á okkar vegum. Svo það er góð og gild á­stæða til að leita svara við þeirri spurningu,“ sagði Marco Ru­bio, for­maður nefndarinnar, við banda­ríska fjöl­miðla í júlí síðast­liðnum.