Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, voru við móttökuathöfn í Friðarhöfninni í Vestmannaeyjum í dag þar sem nýr Herjólfur var afhentur Vestmannaeyingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Katrin Jakobsdóttir nefni nýja skipið formlega Herjólf og Sigurður Ingi flutti ávarp þar sem hann afhenti Eyjamönnum ferjuna. Sagði hann að með nýjum Herjólfi standi vonir til að samgöngur verði betri og þjóni þörfum Vestmannaeyinga. Nýja skipið hefur meðal annars þann eiginleika að það ristir töluvert grynnra en það gamla, sem mun væntanlega fækka þeim dögum sem ekki er unnt að sigla í Landeyjahöfn.

Margt fólk var komið saman við athöfnina í Eyjum í dag.

Nýja skipið gengur fyrir rafmagni og Sigurður talaði um að orkuskipti séu eitt af áhersluatriðum ríkisstjórnarinnar og þess vegna hefði ekkert annað komið til greina en að fá ferju sem notaði umhverfisvæna orku.

Forstjóri Vegagerðarinnar, formaður bæjarráðs og fulltrúi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs fluttu einnig ávörp og prestur Landakirkju blessaði skipið.

Ráðherrarnir voru ánægðir með nýja skipið.

Samkvæmt frétt RÚV fögnuðu Eyjamenn nýju ferjunni ákaft, svo skips- og bílflaut hljómuðu um alla Heimaey þegar nýja ferjan lagðist við bryggju rétt fyrir klukkan tvö. Þar segir einnig að fólki bjóðist að skoða ferjuna síðdegis í dag og svo aftur milli klukkan tvö og fjögur á morgun.

Gert er ráð fyrir að skipið hefji áætlunarsiglingar til Eyja eftir um tvær vikur. Fyrst þarf að gera skipið rekstrarhæft, fara í prufusiglingar og fá öll leyfi í gegn.

Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir ásamt Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja.