Isa­ac Herzog hlaut rétt í þessu kjör til for­seta Ísrael en at­kvæða­greiðsla fór fram innan ísraelska þingsins, Knes­set, í dag. Herzog fékk 87 af 120 at­kvæðum og hafði því betur gegn mót­fram­bjóðanda sínum Miriam Peretz. Hann mun taka við em­bættinu þegar for­seta­tíð Reu­ven Rivlin lýkur þann 9. júlí næst­komandi.

Herzog, sem verður 11. for­seti Ísrael eftir mánuð, var leið­togi verka­manna­flokksins frá árinu 2013 til 2017 og er í dag yfir­maður Gyðinga­stofnunarinnar. Að því er kemur fram í frétt The Times of Is­rael er Herzog fyrsti ísraelski for­setinn sem er sonur fyrrum for­seta en faðir hans, Chaim Herzog, var 6. for­seti Ísrael árin 1983 til 1993.

Stjórnar­myndunar­við­ræður fara nú enn fram í Ísrael en Yair Lapid, leið­togi Yesh Atid, hefur fram til mið­nættis til að mynda ríkis­stjórn. Hann hafði áður vonast til þess að hægt yrði að til­kynna Rivlin í morgun um að honum og Naftali Bennett, leið­toga þjóð­ernis­flokksins Yamina, hafi tekist að mynda ríkis­stjórn en gekk það ekki eftir.

Gætu þurft að boða til fimmtu kosninganna

Við­ræðurnar eru nú sagðar á loka­stigi en þær hófust eftir að Bennett til­kynnti um helgina að hann myndi vinna með Lapid. Flokkar Lapid og Bennett eiga fátt sam­eigin­legt annað en að vilja koma Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, frá völdum. Gangi stjórnar­myndunin eftir mun Bennett gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra fyrstu tvö árin og Lapid næstu tvö þar á eftir.

Nú virðast við­ræðurnar stranda að einhverju leiti til á skipun em­bættis­manna innan dóms­kerfisins en Ayelet Shaked, annar hæst setti em­bættis­maður Yamina, vill fá sæti Merav Michaeli, leið­toga verka­manna­flokksins, í réttar­fars­nefnd og hefur hótað að neita að sam­þykkja stjórnar­myndun gangi það ekki eftir. Ekki er þó talið að málið muni leiða til þess að við­ræðunum verði slitið.

Ef við­ræðurnar ganga þó ekki eftir fyrir mið­nætti í dag mun þingið þurfa að velja nýjan aðila sem fær stjórnar­myndunar­um­boð og fær 21 dag til að mynda ríkis­stjórn. Takist það ekki mun þurfa að rjúfa þing og kalla til fimmtu kosninganna á rúmum tveimur árum.