Furries á Íslandi er hópur fyrir fólk sem hefur áhuga á dýrum sem hafa mannlega eiginleika. „Í flestum tilfellum býr fólk sér til sinn eigin karakter eða alter-ego (hliðarsjálf)“ segir nýr formaður Stefanía Reynisdóttir, sem hefur hliðarsjálfið Mýra Midnight. Furry, eða loðbolti á íslensku, er víðfeðmt hugtak sem inniheldur meðal annars fólk sem skilgreinir sig sem dýr, fólk með dýrasál og fólk sem finnast mannleg dýr heillandi.

Finnur sjálfstraust í hliðarsjálfi

Loðboltar hafa notið mikilla vinsælda erlendis en eru enn sem komið er ekki fjölmennur hópur á Íslandi. Tæplega hundrað manns eru í hópnum en ekki eru allir virkir meðlimir. „Það er mjög algengt að fólk sem finnur sig í þessum hóp sé með félagsfælni eða eigi í örðugleikum í samskiptum við fólk“ segir Stefanía sem telur loðbolta hjálpa fólki að öðlast sjálfstraust.

„Stundum er gaman að vera einhver karakter sem maður ímyndar sér og fá að vera öðruvísi.“ Stefanía segir alls ekki alla loðbolta eiga búning enda geti verið bæði dýrt og tímafrekt að hanna búning í kringum persónuna sem fólk hefur skapað.

Hefur dreka innra með sér

„Ég kom út frá einhverju sem kallast Dragonkin sem er sálrænna en furry, sem getur verið hversdagslegt fyrir suma, en það er óskýr lína á milli þessa tveggja skilgreininga þannig að ég á mikla samleið með furries.“

Að vera af drekakyni getur verið margþætt en það gæti þýtt að viðkomandi hafi sál dreka, sé sjálfur dreki eða innra með þeim sé eitthvað skylt við anda dreka.

Stefanía segir að margir upplifi að innra með þeim búi dreki og það sé misalvarlegt hjá fólki hvernig það er túlkað. „Sumir hafa búning hjá Dragonkin og finnst þau ekki vera í réttum líkama.“ Sjálf á Stefanía grímu sem byggð er á hennar dreka. „Þetta er gríma sem hræðir son minn stundum því þá breytist mamma í risaeðlu.“

Engar reglur um hvað má vera

Að sögn Stefaníu eru engir skýrir tískustraumar innan loðbolta samfélagsins „Fólk finnur sitt uppáhalds dýr sem þarf samt ekki að vera dýr sem er til á jörðinni.“ Hún segir skilgreiningu á loðbolta vera einfaldlega að gefa einhverju mannlega eiginleika sem er ekki mennskt.

Stefanía fann loðboltana á netinu og segir flesta hafa fundið hópinn þannig. „Í sumum tilfellum veit fólk ekki hverju það er að leita af, hefur kannski lengi haft áhuga á hlutum sem svipa til þessa og ratar síðan inn á síðu þar sem fólk hefur svipuð áhugamál.“

Loðbolta samfélög erlendis vilja fá furry skilgreint sem kynhneigð.
Fréttablaðið/Getty

Tengist ekki kynhneigð

Aðspurð segir Stefanía hópinn vera fyrst og fremst áhugahóp og að það sé ekki í kortunum að fá að skilgreina loðbolta sem ákveðna hneigð. „Þetta er bara áhugamál ekkert ósvipað þeim sem horfa á teiknimyndir og hópast saman í kringum það eða spila alltof mikið af tölvuleikjum.“

Það að vera furry er ekki skilgreint á neinum stað sem kynhneigð þrátt fyrir að einhverjir hópar erlendis hafi kallað eftir því. Algengur misskilningur er að loðboltar tengist dýrahneigð en það er engin tenging þar á milli.

Stefanía telur aðalatriðið hjá loðboltum vera ímyndunaraflið en hún segir áhuga margra kvikna í gegnum hið myndræna. „Fólk er að safna myndum af karakterum sem það býr til og það er mjög tengt þessu áhugamáli að fólk hafi áhuga á myndlist, teiknimyndum, bíómyndum og tölvuleikjum sem hafa svona karaktera.“

Tabú á Íslandi

Ólíkir angar safnast saman í loðbolta samfélaginu á Íslandi sökum þess hve landið er lítið. „Maður hefur séð mörg samfélög hópast saman sem eru nógu svipuð til að mynda eina heild bara til þess að halda í þessu lífi“ en Stefanía segir miserfitt fyrir hópa af þessu tagi að þrífast á þessari eyju. „Það er alveg merkilegt að þessi hópur hafi lifað af hérna á Íslandinu“ bætir hún við.

„Þetta er náttúrulega áberandi áhugamál“ segir Stefanía aðspurð um hvort athygli hafi beinst að hópnum. Hún segir að um leið og fólk sjái búninga fari ímyndunaraflið á flug og ómögulegt að svara hvaða merkingu fólk leggi í það. „Þegar fólki finnst eitthvað skrítið þá myndast alltaf eitthvað tabú í kringum hvernig fólk horfir á þetta utan frá vegna þess að það skilur ekki hvað er í gangi.“

Algengt er að loðboltar sæki innblástur af persónu sinni í tölvuleiki.
Fréttablaðið/Getty

Endurskipuleggur hópinn

Stefanía segir að þrátt fyrir ákveðin tabú þá sé hópurinn bara samansafn fólks með sama áhugamál. Hún var nýlega kjörin formaður hópsins og stefnir á endurbætur. „Þetta hefur alltaf verið óformlegur hópur þó að hann hafi verið til í mörg ár en mig langar að gera þetta aðeins formlegra.“ Skipulögð starfsemi hefur ekki verið mikil síðustu ár en meðlimir innan hópsins hafa þó tekið sig saman farið í ferðir og haldið samkomur.

Nú er unnið að gerð nýrrar heimasíðu en við uppfærslu hennar töpuðust öll eldri gögn svo síðan verður endurreist frá grunni. ,,Ég ætla að endurvekja spjallborðið, þó að spjallborð séu frekar dauð þá hef ég alltaf verið svolítið skotin í spjallborðsmenningu.“

Ekki nýtt á nálinni

Stefanía hefur verið meðlimur loðbolta samfélagsins síðan árið 2006 en hún tók þátt í að skipuleggja fyrsta samfundinn með hópnum. „Ég get ekki sagt að Íslendingar hafi aldrei hópast saman í kringum þetta en þetta var í fyrsta skipti sem við gerðum það undir þessu nafni.“ Hún segir fyrirbærið loðbolta ekki vera nýtt og að Íslendingar hafi lengi verið hluti af þessum hóp.

„Þetta er alveg eldgamalt en flestir sem detta inn í þetta áhugamál eru unglingar, og síðan hættir maður aldrei að hafa áhuga á þessu þó maður verði fullorðinn“ segir Stefanía að lokum og hlær.

Furries á Íslandi bjóða áhugasama velkomna í hópinn.
Fréttablaðið/Getty