Nýr fasi er hafinn í eldgosinu í Geldingadölum að sögn sérfræðinga. Íslendingar hafa fylgst eftirvæntingarfullir með gosinu, sem hefur tekið sér þrjá langa blundi síðastliðna daga með reglulegu millibili.

Gos hófst að nýju seint í gærkvöldi eftir hlé á sýnilegu hraunstreymi en líkt og má sjá á mælum Veðurstofu Íslands hefur gosórói sveiflast upp og niður ítrekað síðustu daga.

Hjartsláttur tröllsins: Órói hefur lækkað eða hætt skyndilega þrisvar sinnum á síðustu dögum.
Mynd: Veðurstofa Íslands

Er reglubundinn taktur á virkninni?

„Ekki endilega í klukkustundum talið en nú virðist nýr fasi hafinn; að órói lækki eða hætti skyndilega og rjúki svo aftur upp en þó aðeins hægar en hann hættir,“ útskýrir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Þegar óróinn lækkar eða hættir má sjá litla sem enga virkni á gígnum í Geldingadölum. Um helgina mátti sjá storknað hraun á yfirborði gígsins áður en kvikan náði að brjóta sér leið upp á yfirborðið að nýju og renna í tungum niður hraunhólinn.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þó virknin minnki af og til í gígnum þá má enn sjá mikinn hita víða um allt hraunið í Geldingadölum, Meradölum og Nátthaga á infrarauðum myndum úr gervitunglum. Þegar gígurinn blundaði hélt hraunið í dölunum áfram að vaxa.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það benda til þess að nokkrar æðar séu að dæla hraunkviku inn í hraunið sjálf í dölunum. En það hefur ekkert með nýja fasann í gígnum að gera.

„Virknin efst í gígnum er ekki endilega að segja okkur alla söguna. Við leggjum í vana okkar að draga ályktanir af því sem við sjáum á yfirborðinu en það er margt í gangi sem eru ekki fyrir augunum á okkur eins og má sjá á hitamyndum.“

Kvika streymir áfram upp í gegnum æðar undir hrauninu sem ekki er hægt að sjá með berum augum. Þó gígurinn hafi blundað hélt hraunið áfram að stækka.
Mynd: Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands

Aðspurður um pásurnar sem eldgosið hefur tekið síðustu daga segir Þorvaldur að þessi hegðun svipi til Puu Oo gossins í Hawaii, en það entist í 35 ár.

„Það má segja að þetta sé nýr fasi en þetta er ekki óþekkt fyrirbæri. Puu Oo gosið fór stundum í svona pásur,“ segir Þorvaldur í samtali við Fréttablaðið.

Puu Oo gosið í Kilauea eldstöðinni, Hawaii, júní 1983. Eldgosið stóð yfir í 35 ár með nokkrum hléum.
Fréttablaðið/Getty images

Hér fyrir neðan má sjá drónamyndband af gosinu þann 3. júlí.