Eins og áður en bíllinn búinn átta lítra W12 vél en með stærri forþjöppum og endurhönnuðum heddum skilar vélin nú 98 hestöflum í viðbót. Það þýðir að hámarksafl hennar er 1.578 hestöfl og togið 1.600 Nm. Er það nóg til að koma bílnum úr 0-200 km hraða á aðeins 5,8 sekúndum. Til samanburðar er það hálfri sekúndu fyrr en nýr Volkswagen GTI er að fara í 100 km hraða. Að sögn Bugatti er hámarkshraðinn 440 km á klst. Til að ráða við aflið er bíllinn búinn fjórhjóladrifi og hefur fengið nýja dempara og stífari gorma. Auk þess hefur Michelin sérhannað sérstök Pilot Sport Cup 2 dekk undir bílinn sem ráða við þennan hámarkshraða. Það eru einu dekkin sem eiga að þola að ekið sé á þeim á 500 km hraða. Bíllinn hefur einnig verið endurhannaður með tilliti til loftflæðis en það er aðallega afturendinn sem hefur fengið yfirhalningu. Bíllinn er 250 mm lengri að aftan og búinn enn stærri loftdreifara. Komið er stærðarinnar pústkerfi með fjórum stútum. Loks er búið að endurhanna loftskiptinn að framan, auk þess að breyta loftgöngum við framvæng til að beina ókyrru lofti frá hjólaskálunum.