Steinar Ingi Kolbeins er nýr aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarssonar, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra. Þetta má sjá á vef Stjórnarráðsins.
Þegar Steinar Ingi var frambjóðandi í formannskjöri Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, var unglingum undir lögaldri boðið áfengi fyrir að kjósa í formannsframboðinu, bæði árið 2015 og 2017.
Fjallað var um þetta í DV og á Stundinni árið árið 2015 og 2017. Í fyrra skiptið, árið 2015 þegar Steinar Ingi var 18 ára, skrifaði hann færslu á Facebook að bjóða öllum nemendum Menntaskólans við Sund að mæta upp í kosningarmiðstöð og fá þar frían hamborgara og bjór. Síðan væri farið saman í Valhöll til að kjósa lista Alberts Guðmundssonar.


Í seinna skiptið, árið 2017 þegar Steinar Ingi var tvítugur barst nemendum MS fjölda skilaboða þar sem þeim var boðið að mæta í partý, greiða þar atkvæði í formannskjöri Heimdallar og fá frítt áfengi og veitingar. Nafn Steinars Inga, sem þá var ármaður Skólafélags MS, kom fyrir í skilaboðum.
„Steinar formaður er í framboði og ég ætlaði að biðja þig um að gera mér þann greiða að mæta og kjósa. Eftir kosningarnar verður geggjað MS partý, í geggjuðum sal og frítt áfengi fyrir alla. Þú og allir vinir þínir eru velkomin í þetta „huge“ partý EF þið eruð til í að kjósa,“ stóð í skilaboðum sem meðal annars 16 ára unglingur fékk sent í gegnum Facebook.
Steinar Ingi þvertók fyrir að fólk á hans vegum hafi smalað krökkum í MS partý í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins. Enginn undir tvítugu fengi bjór en viðurkenndi hann að einhverjir einstaklingar undir lögaldri væri að hjálpa honum í kosningabaráttunni. Hann sagði í samtali við DV að það væri óábyrgt í stjórnmálastarfi að halda menntaskólapartý þar sem unglingum undir aldri væri boðið áfengi gegn því að það kjósi.
