Samdráttur á sölu nýrra bíla er 35,7% miðað við síðasta ár, en fyrstu 10 mánuði ársins var búið að selja 10.499 nýja fólksbíla samanborið við 16.773 sama tímabil fyrir ári.

Sala á nýorkubílum (rafmagn, tengiltvinn, vetni, metan og hybrid) hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum í hlutfalli við bíla knúna jarðefnaeldsneyti, og sérstaklega núna á seinnihluta þessa árs. Þá hafa síðustu tveir mánuðir jafnframt gefið jákvæð merki um að bílasala sé almennt að aukast aftur eftir mikin samdrátt frá síðasta hausti. Það sem af er ári er samdráttur á skráningum nýrra fólksbíla upp á 35,7% miðað við síðasta ár, en í október er samdrátturinn hinsvegar aðeins 17,7% borið saman við október í fyrra.

Hvað varðar skráningar nýorkubíla þá erum við töluvert langt á undan Evrópu. Ef við horfum á árið 2018 þá voru 6,9% nýskráðra fólksbíla á EES svæðinu nýorkubílar samanborið við 16% hér á landi. Á fystu sex mánuðum þessa árs voru 9,5% náskráðra fólksbíla á EES svæðinu nýorkubílar samanborið við 22,7% hér á landi. Í október einum voru nýorkubílar 43% af sölu mánaðarins á Íslandi. Nýorkubílar eru því samtals 26,6% af heildarsölu ársins.

Við þetta má bæta að Bílgreinasambandið hefur haldið því á lofti að ekki má gera lítið úr almennri endurnýjun á bílaflotanum, þó að hún sé að hluta til á þann veg að nýir bensín og dísel bílar komi á götuna fyrir eldri slíka bíla. Þróunin hefur einfaldlega verið þannig á síðustu árum að þeir bílar eru farnir að menga mun minna en þeir gerðu áður og endurnýjun þeirra telur því umtalsvert í vegferð okkar í að minnka mengun og ná loftslagsmarkmiðum.