Nýnasistarnir í Nor­rænu mót­stöðu­hreyfingunni festu límmiða utan á barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði. Þórdís Helgadóttir, leikskáld Borgarleikhússins, sá límmiðana í morgun þegar hún fór með börnin sín í skólann. „Ég reif einn niður og lét skólastýruna vita,“ segir Þórdís.

Skólastjóri barnaskólans staðfesti í samtali við Fréttablaðið. Hún segir hópinn hafa komið tvívegis, sennilega seint um kvöldið eða um nóttina þegar enginn var við, til að líma límmiðana við inngang skólans.

Fjarlægðu límmiðana með stálull

„Þetta var komið upp þegar við mættum til vinnu í gær og í dag. Þetta er frekar óskemmtilegt,“ segir Hildur Sæbjörg Jónsdóttir skólastjóri barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði.

„Við fjarlægðum límmiðana undir eins. Það voru morgunverkin, þetta fer af með stálull og sterkum sítrónudropum,“ segir Hildur.

Hópurinn dreifði einnig límmiðum á ruslatunnur við skóla í Mosfellsbæ fyrr í sumar.

Um er að ræða hóp af fimm mönnum og einni konu sem ferðast um landið og dreifa nasistaáróðri. „Við erum hér til þess að safna ný­liðum og vekja Ís­lendinga til um­hugsunar“ sagði Simon Lind­berg, leið­­togi Nor­dic Resistance Movement, í sam­tali við blaða­mann Frétta­blaðsins í gær.

Hópurinn flaggaði fánum nýnasistasamtakanna Norðurvígis, sem hafa verið starfandi á Íslandi í nokkur ár.

Hættuleg samtök

Baráttukonan Sema Erla Serdar og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, segir nauðsynlegt að stöðva uppgang þessara samtaka strax.

„Norðurvígi eru hluti af hættulegum samtökum nýnasista, rasista og öfgamanna á Norðurlöndum sem meðal annar ala á hatri og ofbeldi í garð hinsegin fólks, múslima, gyðinga, fólks á flótta og þeirra sem ekki eru hvítir á hörund.“ skrifar Sema Erla. Hún bendir á í færslu sinni að meðlimir samtakanna hafa meðal annars verið dæmdir fyrir ofbeldi gegn hinsegin fólki, sprengjuárás, stunguárás og hatursorðræðu í garð minnihlutahópahópa.

Mikilvægt að taka skýra afstöðu

„Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af þeim sem samtök eins og Norðurvígi ala á ótta, hatri og ofbeldi gegn. Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af fjölbreytileika, fjölmenningu eða fjölbreytni. Íslensku samfélagi stafar hins vegar ógn af ofbeldis- og öfgasamtökum eins og Norðurvígi sem vilja stuðla að sundrung og mismunum í samfélaginu okkar,“ skrifar Sema Erla.

„Það þarf að stöðva uppgang þessara ógeðslegu samtaka strax. Áður en það verður of seint. Það er mjög mikilvægt að taka skýra afstöðu gegn því hatri sem samtökin ala á og því ofbeldi sem samtökin ýta undir í garð minnihlutahópa. Það þarf að senda skýr skilaboð um að það sé ekkert pláss fyrir hatur og öfgar í samfélaginu okkar og að Norðurvígi eigi ekkert erindi hér.“

Ellefu félagasamtök hafa boðað til samstöðufundar gegn nasisma laugardaginn 7. september næstkomandi klukkan 15 á Lækjartorgi. Hægt er að melda sig á viðburðinn hér

Hvernig getur þú komið í veg fyrir uppgang nýnasista og rasista á Íslandi?

Sema Erla deildi færslu á Facebook um hvernig einstaklingar geti komið í veg fyrir uppgang nasisma í þjóðfélaginu. Hér fyrir neðan eru nokkrir góðir punktar.