Nýnasistar og aðrir hægri öfgamenn eru mjög sýnilegir á mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum þýskra stjórnvalda. Horst Seehofer, innanríkisráðherra landsins, lýsti þessu sem stóru vandamáli á blaðamannafundi á þriðjudag þar sem ný skýrsla var kynnt.

Seehofer sagði þessa öfgahópa margsinnis hafa „tekið yfir“ mótmæli sem auglýst voru sem friðsamleg og leyfi fengust fyrir. „Það sem veldur sérstökum áhyggjum er að aðrir mótmælendur reyna ekki að aðskilja sig frá þessum hóp,“ sagði Seehofer. „Öfgahægrimenn og aðrir mótmælendur standa hlið við hlið.“

Samkvæmt skýrslu BFV, stofnun innanríkisráðuneytisins sem fylgist með andlýðræðislegum öflum, tilheyrðu rúmlega 33 þúsund manns öfgahreyfingum á hægri kantinum árið 2020. Hafði talan hækkað um tæplega 4 prósent frá árinu áður. BFV telur þriðjung þessa hóps, rúmlega 13 þúsund manns, ofbeldisfullan.

Samkvæmt skýrslunni hafa hægri öfgamenn fundið sér fótfestu í umræðunni gegn sóttvarnaaðgerðum. „Hægri öfgamenn tóku upp umræðuna um kórónaveiruna og snerust algerlega gegn sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda,“ segir þar.

Sérstakur gaumur er gefinn hreyfingum sem kallaðar eru Nýja hægrið og tengjast margar stjórnmálaflokknum AfD. Sagði Thomas Hald­enwang, forstjóri BFV, þessa hópa bera hvað mesta ábyrgð á uppgangi öfgahægristefnu að undanförnu.

„Nýja hægrið setur fram hugmyndafræðilega réttlætingu á aðgerðum öfgamanna,“ sagði Haldenwang. „Þeir predika frá morgni til kvölds um að það sé verið að skipta þýsku þjóðinni út og að það verði að streitast á móti.“

Josef Scuster, formaður aðalráðs þýskra gyðinga, lýsti þeim ógnum sem gyðingar í Þýskalandi standa frammi fyrir vegna hægri öfgamanna. Ofbeldisverk hægri öfgamanna hafa ekki verið fleiri síðan árið 2015, þegar flóttamannastraumurinn var í hámarki. Lögreglan skráði 22 þúsund glæpi tengda hægri öfgamönnum árið 2020. Fordæmdi Schuster AfD fyrir að kynda undir bál sem sé þegar orðið nokkuð heitt, fyrir kosningarnar í september.

Auk fjölgunar í hópi COVID-mómælenda og fjölgunar ofbeldisverka hafa nýnasistar og aðrir hægri öfgamenn farið að láta á sér kræla innan lögreglunnar og hersins.

Í borginni Frankfurt þurfti til að mynda að leysa upp deild sérsveitarmanna eftir að uppgötvaðist að þeir væru reglulegir þátttakendur á spjallrásum hægri öfgamanna og væru farnir að heilsast að nýnasista­sið.

Samkvæmt skýrslu BFV hefur einnig orðið fjölgun í hópi kommúnista og annarra öfgavinstrimanna. Mun smærri hluti þeirra sé þó hlynntur ofbeldi. Ofbeldisverk vinstri öfgamanna voru skráð rúmlega 1.200 á síðasta ári.