Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi gefa áfram kost á sér í prófkjöri flokksins sem hefst í dag og stendur fram á laugardag.
Fjármálaráðherra og formaður flokksins gefur einn kost á sér til forystu í kjördæminu en hinir þingmennirnir þrír gefa allir kost á sér í 2. sæti. Þetta eru Bryndís Haraldsdóttir, Óli Björn Kárason og Jón Gunnarsson.
Í síðasta prófkjöri sem haldið var fyrir kosningarnar 2016 varð Jón Gunnarsson í 2. sæti, Óli Björn Kárason í 3. sæti og Bryndís Haraldsdóttir í 5. sæti. Henni var hins vegar lyft alla leið upp í 2. sæti vegna karlaslagsíðu á listanum. Vilhjálmur Bjarnason sem lenti í 4. sæti í prófkjörinu varð af þessum sökum af þingsæti en flokkurinn fékk fjóra menn kjörna á þing. Í síðustu kosningum var sami listi boðinn fram, vegna þess hve brátt kosningarnar bar að.
Fleiri en þingmennirnir þrír vilja hins vegar sæti framarlega á lista. Vilhjálmur freistar þess að komast aftur á þing og gefur kost á sér í 3. sæti eða ofar. Kristín Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, og Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sækjast einnig báðar eftir þriðja sæti. Þær voru í 6. og 7. sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar.

Tveir áhugaverðir nýliðar gefa nú kost á sér í örugg þingsæti fyrir flokkinn. Arnar Þór Jónsson héraðsdómari sækist eftir 2. til 3. sæti og Sigþrúður Ármann, lögfræðingur og framkvæmdastjóri, gefur kost á sér í 3. sæti. Margir eru forvitnir um hennar gengi í prófkjörinu en hún þykir eiga öflugt stuðningsnet kvenna í kjördæminu.
Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, sækist eftir 4. sæti en hann er þekkt andlit í prófkjörum flokksins í kjördæminu. Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, sækist einnig eftir því sæti. Þá sækist Hannes Þórður Þorvaldsson eftir 5. sæti.

Heimildir Fréttablaðsins herma að Sjálfstæðismenn hafi mikið velt fyrir sér hver áhrif þess mikla hita sem var í prófkjörinu í Reykjavík muni hafa á prófkjörið í Kraganum og prófkjörið í Norðvesturkjördæmi og hvort frambjóðendur í innsta hring forystunnar þurfi að óttast áhlaup. Heimildir Fréttablaðsins herma að ekki sé síður áhugi á framboðum nýliðanna, þeirra Sigþrúðar og Arnars Þórs. Fái flokkurinn sama þingmannafjölda í kjördæminu í komandi kosningum, er alls ekki gefið að þau Bryndís, Jón og Óli Björn haldi öll velli.
Prófkjörið stendur yfir í dag, föstudag og laugardag og er kosið að Garðatorgi 7, Garðabæ, Norðurbakka 1a, Hafnarfirði, Þverholti 2, Mosfellsbæ og Austurströnd 3 á Seltjarnarnesi. Í Kópavogi er kosið að Hlíðasmára 19, í dag og á morgun, en í Lindaskóla á laugardag.