Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir nýjustu tilslakanir gríðarlega mikilvægir fyrir börn.

Ríkisstjórnin fundaði um tillögur sóttvarnalæknis á fundi í dag og var meðal annars samþykkt að hækka fjöldatakmarkanir í skólum upp í 150 manns og gildir það um öll skólastig. Ef ekki verður hægt að uppfylla eins metra reglu ber að hafa grímu.

„Hér eru börn að mæta í leik-, grunn-, og framhaldsskóla. Nú eru háskólarnir að opna enn frekar þannig að þetta er mikill gleðidagur,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við fjölmiðla.

Þessar reglur taka gildi frá og með morgundeginum og gilda fram á vor.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn og ungmenni að komast í sitt reglulega líf, hvort sem það er í námi, tómstundum eða öðru. Við skulum ekki blekkja okkur á því að þessi faraldur sé ekki áskorun fyrir þessa yngstu kynslóð okkar líkt og aðra. Það heyrist bara ekki jafn hátt í börnunum en það sýnir okkur mikilvægi þess hversu mikilvæg eðlileg rútína og félagsstarfsemi er fyrir þennan hóp,“ segir Ásmundur Einar í samtali við Fréttablaðið.

Brottfall úr tómstundum eykst

Ásmundur segir félagsmálaráðuneytið vakta viðkvæmustu hópana og alvarlegri málin. Þetta sé einfaldlega áskorun.

„Þessi daglega rútína, tómstundir, íþróttastarf, skóli, skiptir gríðarlega miklu máli. Það er mikilvægt að þegar faraldrinum slotar að við tökum vel utan um þessa einstaklinga þannig að þeir nái aftur sínum fyrri styrk. Við sjáum að brottfall úr tómstundum er að aukast og við höfum verið með aðgerðir til að bregðast við því og höldum áfram á sömu braut.“