Tækni­risinn App­le hefur gefið út til­mæli sem varða nýjustu gerð iP­hone síma, iP­hone 12, og notkun sjúkra­tækja, til að mynda hjarta­gang­ráða og hjarta­stuð­tækja, en seglar sem eru í símunum og MagS­a­fe fylgi­hlutum geta haft á­hrif á virkni tækjanna.

Samtökin Heart Rythm Society birtu fyrr í mánuðinum grein þar sem truflanir iPhone 12 á gangráða voru rannsakaðar en við rannsóknina kom í ljós að tækið hætti að virka þegar síminn var staðsettur nálægt því.

Fólk haldi símanum í öruggri fjarlægð

Að því er kemur fram í til­kynningu frá App­le um málið eru fleiri seglar í öllum týpum af iP­hone 12 símum heldur en eldri iP­hone símum. Þó er ekki talið að nýjustu símarnir valdi meiri raf­segul­truflunum heldur en eldri týpurnar.

Engu að síður er því beint til fólks sem notar sjúkra­tæki, eins og hjarta­gang­ráða, að símum og MagS­a­fe auka­hlutum sé haldið 15 sentí­metra fjar­lægð, eða 30 sentí­metra fjar­lægð á meðan síminn er í hleðslu, til þess að minnka líkurnar á mögu­legum truflunum.

„Leitið til læknis og sjúkra­tækja­fram­leið­enda fyrir upp­lýsingar sem eiga sér­stak­lega við þitt sjúkra­tæki og hvort þú þurfir að halda öruggri fjar­lægð milli tækisins og iP­hone eða MagS­a­fe auka­hluta,“ segir í til­kynningu App­le.