Í nýrri reglu­gerð heilbrigðisráðherra um smitvarnir er ekki ákvæði um þá sem hafa jafnað sig á Covid-veikindum en eru enn já­kvæðir í PCR-prófi.

Þeir sem smitast er­lendis og taka út tíu til fjórtán daga ein­angrun gætu jafnvel þurft að bíða í tvo mánuði áður en þeim verður hleypt í á­ætlunar­flug.

„Erfða­efni veirunnar getur fundist í öndunar­veginum í ein­hverjar vikur eftir að við­komandi hefur náð bata án þess að við­komandi sé smitandi, því PCR-prófið er svo næmt,“ segir Runólfur Páls­son, yfir­maður Co­vid-göngu­deildarinnar.

„Þetta var mál málanna sumarið 2020 þegar landa­mærin voru opnuð, fyrir tíma bólu­setninga. Þá voru ein­staklingar sem voru búnir að fá Co­vid-19 að reynast með já­kvætt PCR-próf þegar þeir komu til landsins. Þá vorum við í því að meta hvort þetta væri virk sýking eða eldri sýking og við gerðum það meðal annars með því að mæla mót­efni,“ segir Runólfur en slíkt er gert með blóð­prufu.

„Það er hægt að meta þetta með á­kveðnum leiðum í PCR-prófi. Ef það er lagt mat á veiru­magnið en þetta er mjög snúið mál og þessir aðilar eru í von­lausri að­stöðu til að meta það hvort þetta er ein­stak­lingur sem er smitandi, eða hvort þetta er ein­stak­lingur sem er búinn að fá Co­vid-19 og er ekki lengur smitandi en ber samt erfða­efni veirunnar í öndunar­vegi,“ segir Runólfur, sem bendir á að þessu fólki sé hleypt aftur inn í sam­fé­lagið eftir ein­angrunina en það séu líkur á að því verði meinað að fara í flug til landsins.

„Við höfum verið að meta þetta hér eftir að fólk er komið inn í landið en það þarf að draga blóð­sýni til að mæla mót­efni og sýna fram á þetta,“ segir Runólfur.

„En það er alveg hugsan­legt ef svo ber undir að við­komandi sé ekki lengur smitandi, hann er búinn að ná bata af Co­vid-19 en er enn þá með veiruna í öndunar­veginum. Það er alveg mögu­legt í þessari stöðu.“

Runólfur segir spurningu hvernig sótt­varnayfir­völd vilji hliðra til fyrir því að þetta fólk komist heim. „Það eru margar erfiðar hliðar á þessu,“ segir hann.