Slysavarnafélagið Landsbjörg leitar að styrktaraðilum til að koma með sér inn í stærsta fjárfestingarverkefni félagsins sem er að endurnýja björgunarskipaflotann.

„Fyrsti báturinn af þremur er kominn til Vestmannaeyja. Þar greiddi ríkið helminginn á móti okkur. Það er í gildi viljayfirlýsing um tíu björgunarbáta í viðbót,“ segir Otti Rafn Sigmarsson formaður Landsbjargar. Nýr bátur kostar hátt í 300 milljónir og stendur til að endurnýja alla þrettán bátana.

Fyrsta skipið, Þór, var vígt í Vestmannaeyjum um helgina. Næsta fer á Siglufjörð í janúar og það þriðja verður staðsett í Reykjavík. „Það er ekki verið að taka nokkur skref áfram heldur margar kynslóðir áfram í björgunarskiparekstrinum. Þetta eru öflugustu og best búnu björgunarskip Evrópu í dag,“ segir Otti.

Næsta skref hjá Landsbjörg er að halda áfram samtalinu við ríkið og fá fleiri að borðinu en Sjóvá styrkti Landsbjörg um 142 milljónir. „Við erum að leita að fleirum til að koma um borð í þetta verkefni. Útgerðirnar til dæmis sem hafa hag af því að hafa þessa hluti í lagi. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir formaðurinn.