Margrét Erla Maack tók stöðuna á breyttum neysluvenjum Íslendinga í Fréttavakt gærdagsins sem sýnd er alla virka daga á Hringbraut og Fréttablaðið.is. Vinsældir flóamarkaða fara vaxandi samhliða því að neytendur taka umhverfissjónarmið í auknum mæli með í reikninginn þegar þeir versla sér föt.

„Ég held að það sé bæði að fólk vill losa sig við og það er að verða vitundarvakning við þessu að fólk vill koma frá sér hlutunum og svo aðrir sem vilja fá pening fyrir hlutina,“ sagði Davíð Örn Jóhannsson eigandi loppemarkaðarins Hringekju.

Það er langt því frá að fötin sem hægt er að versla á slíkum mörkuðum séu af verri endanum og oft er hægt að rekast á ýmsa fjársjóði á góðu verði eins og Margrét komst að.

Mikill sparnaður fyrir foreldra

Það getur verið kostnaðarsamt að stækka við fjölskylduna og margir Íslendingar hafa tekið upp á því að versla notuð barnaföt.

„Það kemur ekki rólegur dagur hjá okkur,“ sagði Tinna Jónsdóttir hjá Barnaloppunni. ,,Það er allur gangur því hvað fólk er að leita eftir. Sumir vilja bara merkjavörur en svo eru aðrir sem vilja bara finna góð föt á góðu verði."

Tinna segir að þegar verslunin opnaði hafi eigendurnir haft ákveðnar áhyggjur af því að íslenskir neytendur væru ekki tilbúnir að eyða peningum í notuð föt, en hún segir að á hinum Norðurlöndunum sé hinsvegar mikil hefð fyrir slíkum kaupum.

„Á síðustu árum vorum við svolítið stressuð með hvort að íslenska viðhorfið væri ekki alveg komið alla þessa leið eins og Danmörk, Noregur og Svíþjóð þar sem fólk er rosalega mikið á þessum mörkuðu,“ sagði Tinna.

Sjáið innslag Margrétar í heild sinni hér fyrir ofan.

Fréttavaktin er í beinni útsendingu alla virka daga á Hringbraut og Fréttablaðið.is.