Nýjar vísbendingar bárust um klukkan átta í morgun um staðsetningu flugvélarinnar sem ekkert hefur spurst til síðan í gær. Fyrst var greint frá á RÚV en þar kemur fram að erlent símafyrirtæki rýndi í símagögn farþeganna og flugmannanna og fékk upp nákvæmari upplýsingar.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið og segir að í kjölfar þessara upplýsinga verði mesti þunginn settur í leit við sunnanvert Þingvallavatn.
Kallaðir hafa verið úr bátaflokkar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, séraðgerðarsveit gæslunnar með sérstakan neðansjávarbúnað sem og sérfræðingar frá lögreglunni en aðstæður á vatninu eru mjög krefjandi, bæði er mikill ís og krapi á vatninu.
Hann tekur þó fram að leit heldur áfram annars staðar þó að mesti þunginn verði núna settur í leit þarna.
Fjölmennt lið björgunarsveitarfólks og lögreglumanna hefur verið við leit frá því í gær en um borð í flugvélinni voru þrjú erlend ungmenni og íslenskur flugmaður á fimmtugsaldri.
Heyrðist síðast í þeim 11.30 í gær
Fram kom í Fréttablaðinu í dag að fjórmenningarnir flugu frá Reykjavíkurflugvelli á ellefta tímanum í gærmorgun en skiluðu sér ekki til baka samkvæmt áætlun. Síðast heyrðist til þeirra um klukkan hálf tólf í gærmorgun. Herma heimildir blaðsins að farþegarnir hafi verið hluti af hópi sem kom til landsins á mánudag og eru þeir af ýmsum þjóðernum og á þrítugsaldri.