Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og norðaustur fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt. Ekki er hægt að útiloka að fleiri gossprungur opnist á næstu dögum eða vikum.

Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi vísindaráðs almannavarna sem hittist á fundi í dag. Á fundinum var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun auk framgang gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þeirri mengun sem fylgir eldgosinu.

Þá voru ræddar þær hættur sem snúa að fólki sem sækir gosstöðvarnar heim og hvaða svæði væru hættulegust með tilliti til mögulegrar opnunar á nýjum sprungum, hraunflæðis og gasmengunar.

Fyrirboðar ekki greinanlegir

Í tilkynningu sem almannavarnir sendu frá sér í kvöld kemur fram að mesta skjálftavirknin nú sé norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Þannig mælast grunnir skjálftar við Litla-Hrút og er fylgst vel með þeirri virkni. Lítil aflögun mælist á Reykjanesskaganum en merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags. Breytingarnar eru litlar og eru fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir.

Þá benda bráðabirgðamælingar til þess að hraunflæði hafi frekar aukist við opnun síðustu gossprungna, en nákvæmari mælinga er að vænta fyrir morgundaginn.

„Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum gæti hafi aukist miðað við það sem áður var þegar einungis gaus í Geldingadölum. Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu. Mikil mengun mælist í kringum gosstöðvarnar, en utan hennar dvínar hún hratt. Veðurstofan hefur sett upp tvo síritandi gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum,“ segir í tilkynningu.

Veðurstofan vinnur heildarhættumat

Þá er þess getið að Veðurstofan muni vinna heildarhættumat fyrir svæðið þar sem tekið er á hættu vegna hraunrennslis, gasmengunar og möguleika á myndun nýrra gossprungna. Tekið er fram að opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra undanfara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk. Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði, eða frá suðvesturhluta Geldingadala norðaustur að Litla-Hrúti.