Nýjar reglur um samkomutakmarkanir tóku gildi á miðnætti en með breytingunum mega tuttugu manns koma saman í stað tíu áður, líkamsræktarstöðvar mega hafa opið samkvæmt ströngum sóttvarnareglum og íþróttaæfingar barna og fullorðinna verða heimilaðar bæði með og án snertingar innan- og utandyra með allt að 100 áhorfendum sem skulu skráðir í sæti.

Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi. Áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaviðburðum og leyfilegur fjöldi gesta í líkamsræktarstöðvar er helmingur af leyfilegum hámarksfjölda.

Heimilt verður að opna sundlaugar að nýju með breyttum reglum og sama á við um skíðasvæði, leyfilegur gestafjöldi þar er helmingur af leyfilegum hámarksfjölda gesta líkt og í líkamsræktarstöðvum.

Sviðslistir verða heimilar að nýju frá miðnætti, þar með talið kórastarf. Heimild er fyrir 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju sóttvarnahólfi. Hámarksfjöldi við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður áfram 30 manns en þó mega 100 manns vera við útfarir.

Heimilt er að hafa skemmtistaði, krár, spilasali og spilakassa opna með sömu skilyrðum og veitingastöðum hefur verið gert að fara eftir. Það felur í sér að heimilt sé að taka á móti gestum til klukkan 21 en staðirnir skulu hafa verið rýmdir fyrir klukkan 22.

Hámarksfjöldi gesta í hverju rými eru 20 manns og tryggja skal tveggja metra regluna. Allir gestir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri og veitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að selja mat út úr húsi til klukkan ellefu á kvöldin.

Verslunum verður heimilt að taka á móti fimm viðskiptavinum á hverja tíu fermetra, þó aldrei meira en 100 viðskiptavinum í einu. Tuttugu starfsmenn mega vera í hverju rými auk viðskiptavina.

Breytingar á sóttvarnareglum ttóku gildi á miðnætti í kvöld og er lagt upp með að þær gildi í þrjár vikur, eða til 6. maí.

Reglugerð ráðherra er aðgengileg hér.